Kæri lesandi,

þetta var ansi viðburðaríkur laugardagur. Ég sofnaði vel fyrir miðnætti í gærkvöldi og var því að sjálfsögðu vaknaður fyrir sjö í morgun. Þetta gladdi mig reyndar talsvert og ég hugsaði mér gott til glóðarinnar, ætlaði að koma ýmsu í verk en fljótlega fór magaverkur að kræla á sér. Indverska kvöldmáltíðin í gær fór eitthvað illa í mig og refsaði mér fram undir hádegið, þannig að mér varð lítið úr laugardagsmorgni.

Á endanum herti ég mig þó upp og skaust austur fyrir fjall til að sækja dóttur mína í Hveragerði eins og lofað hafði verið. Á leiðinni til baka stoppaði ég við skíðaskálann í Hveradal og tók símtal, fór í beina útsendingu á X-inu þar sem ég fór yfir 16-liða úrslitin á HM í knattspyrnu. Ég spáði í leikina átta og vonaði að spjalli loknu að ég reyndist ekki of fjarri lagi, það væri verra ef ég tippaði illa á þessa leiki fyrir framan hlustandi þjóð. Svo voru leiknir tveir leikir í dag og ég tippaði rétt á annan þeirra, sem sleppur til.

Síðdegis fór ég svo í afmælisveislu hjá ungri heimasætu sem fagnaði fyrsta afmæli sínu. Það var gott og gaman. Í kvöld vildi svo yngri dóttir okkar gista hjá vinkonu sinni, við gátum ekki mótmælt því eftir að systir hennar hafði fengið að gista í gærkvöldi og því enduðum við hjónin hálf barnlaus annað kvöldið í röð (unglingurinn hangir bara inni hjá sér og sú yngri sofnaði snemma í gær). Það var lúxus.

Ég þigg alveg annan svona dag á morgun, að undanskildri magakveisunni.

Þar til næst.