Kæri lesandi,

þetta hefur verið týpískur sunnudagur. Afslöppun og verkefni, leti og göngutúrar. Fínasta veður þannig að ég tók nokkrar myndir af mistrinu og jólaljósunum á kvöldgöngunni.

Ég fór með stelpurnar í Kringluna í dag. Þær vildu skoða nokkrar búðir, leggja línurnar fyrir óskalistann sinn fyrir jólin en líka kaupa nokkrar ódýrari gjafir fyrir vini sína. Einhvern veginn endaði ég samt á að borga úr eigin vasa fyrir þær, nokkrar gjafir en líka sína hvora pop-fígúruna sem prýða nú hillur þeirra systra. Alltaf er maður gabbaður upp úr skónum.

Við gengum í gegnum Kúmen, nýja matartorgið í Kringlunni. Kúmen er kryddið í kringlunni stendur þar á vegg, enda kjörorð þessarar nýju mathallar eða hvað þetta er nú eiginlega. Þetta lítur ágætlega út, auðvitað bara hálfklárað verk þar sem bíóið og megnið af gamla Stjörnutorgi á enn eftir að vera klárað. Það verður örugglega hægt að slaka á þarna inni þegar þetta verður fullbúið og ég verð að viðurkenna að ég fíla þetta hugtak að barnalandið sé við hliðina á líkamsræktinni. Þannig að það er bókstaflega hægt að eyða deginum í Kringlunni núna, jafnvel setja börnin í pössun á meðan maður skellir sér í ræktina. Þetta er flott konsept, sjáum hvernig það gengur upp.


Ég hjó eftir einu á samfélagsmiðlum í vikunni. Það var svolítið um að konur væru að smána karla eða skamma þá sem deildu sínu Spotify Wrapped fyrir árið 2022, af því að karlarnir sem deildu sínum niðurstöðum opinberuðu að þeir hlusta mjög lítið og stundum ekkert á konur, amk ekki ef eitthvað er að marka topp 5 listana þeirra sem er jú það sem þú færð úr Spotify Wrapped. Ég er ekki hrifinn af þessu framtaki, þarna finnst mér konur og femínistar vera að búa til óþarfa kergju í garð sinnar hreyfingar, eitthvað sem skilar jafnréttisbaráttunni meiri neikvæðni en framþróun. Til hvers að smána karla sem hlusta aðallega á aðra karla á Spotify?

Ég hef lengi verið meðvitaður um að sem karlmaður hef ég ómeðvitaðar hneigingar í átt að karlmönnum þegar kemur að þeirri list sem ég innbyrði. Sumt af því hefur lagað sig sjálft í gegnum árin – til dæmis eru sjónvarpsþættir og kvikmyndir orðnar miklu betri í að sýna fleiri en bara karllægar sögur, svo maður þarf minna að passa sig þar. (Það er helst að maður þurfi að passa sig að horfa á myndir eftir kvenkyns leikstjóra, sem eru enn allt of sjaldgæfar í Hollywood.)

Tónlistin er fjölbreytt flóra og ég hef alltaf leitast við að hlusta á nýja hluti þar og alls konar, frá ýmsum heimshornum og þjóðfélagshópum. Það er ekki gert af einhverri skyldurækni í garð jafnréttisbaráttu, ég hef einfaldlega áhuga á að uppgötva nýja tónlist og skemmtilega og hef því alltaf verið hálfgerður leitandi í þeim fræðum.

Ég á hins vegar klárlega ákveðið bakland í tónlist sem skilar sér oftast í efstu sætin í hlustun hjá mér. Til dæmis líður ekki það ár að ein af fjórum fræknu grunge-sveitum Seattle sé ekki í einu af tveimur efstu sætunum hjá mér, í ár er það t.d. Soundgarden sem trónir á toppnum í hlustun sem fyrr. En þótt topp 5 sé kannski karllægur frábið ég mér að vera útmálaður sem eitthvað karlrembusvín sem hlustar bara á aðra karla eða þurfi eitthvað að „taka til í mínum málum“. Það er kjaftæði.

Til dæmis skilar Spotify mér playlista með 100 mest spiluðu lögum ársins sem hluti af Wrapped-uppgjörinu og þar eru nákvæmlega 25 lög með kvenkyns flytjendum, eða einn fjórði, sem ég tel alveg ágætt miðað við að ákveðnir flytjendur raða lögum inn á listann (Soundgarden eiga t.d. annan fjórðung af listanum) sem skekkir tölfræðina. Eins hef ég nú þriðja árið í röð safnað lögum á minn eigin playlista yfir árið, eins konar curated 2022 music experience ef ég má sletta aðeins, og á þeim lista eru nú alls 80 lög og þar af eru 33 með kvenkyns flytjendum, sem eru nærri helmingur. En ef ég færi að birta topp 5 listana mína af Spotify Wrapped á samfélagsmiðlum yrði ég eflaust skammaður af femínistum af því að þar er enginn flytjandi og aðeins eitt lag með kvenkyns flytjanda.

Þetta eru skakkar niðurstöður og alls ekki nægar upplýsingar til að ætla að mála einhvern sem karlrembu eða þaðan af verra frammi fyrir alþjóð. Enda læt ég orðið allt slíkt eiga sig á samfélagsmiðlum. Maður tekur ekki sénsinn.

Ég deili samt kannski Spotify Wrapped og almennilegu tónlistaruppgjöri (þ.m.t. topp 10 plötur ársins) hér í færslu á næstu dögum, nú þegar ég hef komið neikvæða hluta slíkra uppgjöra frá mér. Þetta hefur nefnilega verið dúndurgott tónlistarár að flestu leyti fyrir mig persónulega, og margt sem má mæra.

Þar til næst.