Kæri lesandi,

endurvakning þessarar dagbókar er hluti af viðleitni minni til að virkja skrifvöðvann á ný. Ég hef ekkert skrifað af viti síðan ég lagði þessa síðu í dvala í janúar síðastliðnum, en nú lofaði ég sjálfum mér að skrifa á hverjum degi í desember og sjá svo til. Þetta er þó ekki bara dagbókarinnar vegna heldur er þessi tilraun mín einnig hluti af stærra verkefni.

Ég hef ekki skrifað skáldskap í á þriðja ár. Ég virðist vera tvennt í einu, rithöfundur í dvala og fyrrum rithöfundur. Ég hef gengið margsinnis og á alla vegu í kringum vandamálið, tæklað það berum höndum, rætt það, hugsað um það, örvænt yfir því, yppt öxlum og gert lítið úr því og svo mætti endalaust telja. Einfaldasta leiðin til að útskýra hvað gerðist er að ég lenti á vegg, komst ekki yfir hann, átti í kjölfarið rökræður við sjálfan mig um hvort ég væri yfirhöfuð rithöfundur, og vann þær rökræður á sannfærandi hátt. Og því fór sem fór, öll opin verkefni fóru ofan í skúffu, ég hafði endanlega dregið tennurnar úr sjálfum mér og það var tilgangslaust að reyna að berjast gegn því sem blasti við.

Ég hef samt aldrei glatað viljanum til að skrifa. Þetta nagar mig, svona stundum (en alls ekki alltaf), og ég rifja rökræðurnar reglulega upp. Engu að síður er ég kominn á þann stað að hvert lítið skref í átt að skapandi skrifum virðist ógnarstórt, því það er tengt svo mörgu öðru. Það er erfitt að ætla í stuttan göngutúr þegar þú stendur við rætur Everest-fjalls, þá er göngutúrinn aldrei bara göngutúr heldur upphafið að einhverju stóru og ógeðslega erfiðu.

Allavega. Eftir vandlega umhugsun í haust tók ég ákvörðun um miðjan nóvember og ákvað að setja allar sögur sem ég hef verið að veltast með ofan í skúffu … og henda lyklinum. Ég er með eitt og hálft skáldsöguhandrit og mýgrút smásagna af ýmsu tagi ofan í téðri skúffu. Og ég hef lofað sjálfum mér að ég ætla aldrei að snerta neitt af þessu fyrr en ég hef skrifað eitthvað annað og klárað það. Það var íþyngjandi að þurfa í sífellu að rífast um hvað ég ætti að halda áfram með næst þegar ég tæki til við skriftir. Nú er ég allavega laus við þá byrði og gæli í rólegheitum við nýjar hugmyndir. Það er áhugavert að máta sig við ýmsar sögur og möguleika sem staldra við í kollinum á mér, og mér líður eins og það sé eitthvað að taka á sig mynd þar. Fyrst og fremst liggur mér ekkert á, ég hef sóað það miklum tíma að ég tel hollast að temja mér það hugarfar að fara ekki af stað fyrr en ég hef eitthvað að segja. Ég ætla ekki að skrifa sögu bara til að skrifa eitthvað, þannig hef ég aldrei unnið. Ef ég hef ekkert að segja, ekkert sem mér þykir knýjandi að koma frá mér, þá sleppi ég þessu bara.

Í millitíðinni skrifa ég þessa bók um daga, glósur af jaðarveru, þetta bréfasafn loddara. Lítið um öfgaskoðanir þessa dagana.

Þar til næst.