Kæri lesandi,
færslan mín í gær var ekki upp á marga fiska. Svona eru dagarnir, upp og ofan. Ég er að koma mér í rútínuna aftur, finna rythmann, og það er ekki alltaf jafn auðvelt. Dagarnir eru misjafnir. Í gær var ég undarlega tómur, so it goes. Í dag finnst mér ég vera frjórri.
Ég hlustaði á hlaðvarp í dag þar sem þáttastjórnandi fjallar um frábær lög sem einkenna tíunda áratug síðustu aldar. Eitt lag í hverjum þætti, það er inntak þáttanna. Í þætti vikunnar útskýrði hann hvernig fólk verslaði sér tónlist á tíunda áratug síðustu aldar. Fólk heyrði eitt gott lag í útvarpinu og tók eftir því. Svo heyrði fólk nokkrum vikum síðar annað gott lag í útvarpinu eftir sama flytjanda, og þá ákvað fólk yfirleitt að tékka betur á viðkomandi flytjanda. Í kjölfarið var leiðin lögð í næstu hljómplötuverslun og nýjasti geisladiskurinn með téðum flytjanda keyptur. Fólk passaði upp á að diskurinn innihéldi lögin tvö sem fólk vissi þegar að voru góð, af því að það hafði heyrt þau tvö lög í útvarpinu, en restin af plötunni var hulin ráðgáta. Það var engin leið að heyra restina af plötunni nema að koma höndum yfir eintak, sem gerðist annað hvort ef fólk fékk að heyra hjá vinum eða með því að fara út í verslun og taka sénsinn.
Þannig að við tókum sénsinn. Svo fórum við heim og hlustuðum á plötuna og vonuðum að það væru meira en tvö góð lög á henni. Stundum var meirihluti laganna góður, sem var gríðarlega ánægjulegt, en oftar ekki. Mjög sjaldan voru góðu lögin tvö einu góðu lögin, og enn sjaldnar var að öll lögin væru góð. En við tókum sénsinn. Það var ekkert annað í boði.
Þar til næst.