Kæri lesandi,

þessa dagana er fólkið í landinu að smjatta á frekar djúsí frétt. Þetta er svona frétt sem bæði er auðvelt að hneykslast á og grínast með, sem gerir hana að kjörlendi fyrir samfélagsmiðla. Þannig er mál með vexti að einhver metnaðarfull OnlyFans-stjarnan sá sér leik á borði og tók upp erótískt myndband (ljósblátt eða dökkblátt fylgir ekki sögunni) í sjúkrabíl á vegum hins opinbera. Eftir ábendingar fór fram rannsókn og gerðist hinn seki loks uppvís að athæfinu og var sagt upp störfum. Þar með er málinu lokið, ekki satt?

Aldeilis ekki. Brandararnir eru mýmargir, („Hringdu í 112 og biddu um góða bílinn.“) og fólk er að nota tækifærið til að birta alls konar skoðanir þessu misvel tengt. Þetta er svona frétt sem hentar mjög vel af því að það er hægt að spyrða hana saman við svo margt. Ha, stundaði fólk kynlíf í sjúkrabíl? Já ég er sko samþykkur því að klám verði lögleitt. Eða, erum við sem sagt ekki að sótthreinsa sjúkrabifreiðarnar okkar nógu vel? Gæti ég hafa legið í safa annars fólks þegar ég þurfti bráðaskutl inná spítala?! Ætlar enginn að hugsa um börnin?!?

Þetta var einangrað atvik, en síðasta fréttin sem mér þótti brosleg út af þessu máli birtist í kvöld þegar yfirvöld hvöttu fólk til að ræða þetta mál ekki frekar og birta ekki frekari greinar. Af því að hvað … er virkilega einhver ótti yfir því að fleiri gætu fyllst innblæstri og hermt eftir þessu einangraða atviki ef við tölum of mikið um það? Gimmí a breik.

Það er kannski verst að það er bara hálfur mánuður til jóla, og sennilega of seint að koma þessu atviki fyrir í áramótaskaupinu. Eða hvað, líklega er það bara hið besta mál, þar sem það hefði getað verið stórhættulegt að minna okkur á þetta um áramótin. Fólk gæti hreinlega fengið hugmyndir og farið að ríða í leigubílum eða vöruflutningabílum eða jafnvel á almannafæri. Af því að slíkt hefur auðvitað aldrei gerst áður…

Þar til næst.