Kæri lesandi,

yngri dóttir mín er lasin og búin að vera það alla vikuna. Hún er með barkabólgu, raddleysi og almennan pirring í hálsinum, sem fer eðlilega illa með þolinmæði níu ára stúlku. Hún er búin að vera heima í fimm daga núna og þarf örugglega að sýna frekari þolinmæði yfir helgina áður en hún sleppur út úr þessu.

Ég var með henni í gærkvöldi á meðan móðir hennar fór í bæjarferð. Hún vildi bara kúra hjá mér í sófanum sem ég gerði með glöðu geði, enda fátt skemmtilegra en að eiga gæðastund með henni. Í kvöld var svo komið að mér að fara út og þá var mamman heima með hana. Svona er verkaskiptingin þegar barnið okkar er lasið, við skiptumst á en aðalatriðið er að a.m.k. annað okkar er alltaf til staðar. Hún þarf ekki að klára erfið veikindi ein.

Ég fór í matarboð í kvöld. Það var mjög gaman, vinur minn var að fagna flutningum í nýja íbúð og afmælinu sínu. Við átum góðan mat, drukkum svalandi drykki og ræddum allt milli himins og jarðar. Það skiptir nefnilega máli að vera líka til staðar fyrir vini sína. Maður græðir enda á því sjálfur, því fátt er hollara en góðar stundir með góðu fólki. Á morgun ætla ég svo í barnaafmæli hjá bróður mínum og hitta fleira af besta fólkinu.

Ég gleymi því oft þegar ég er í holunni minni og er bara út af fyrir mig að lesa eða eitthvað, en það besta í lífinu er fólkið í manns eigin innsta hring.

Þar til næst.