Kvikmyndin The Grey frá árinu 2012 (leikstj.: Joe Carnahan) er frábær, ekki síst í því hvernig hún nær að vera marglaga skoðun á karlmennsku án þess að velta sér of mikið upp úr því. Myndin hafði talsverð áhrif á mig þegar ég sá hana í bíó fyrir áratug og ég man ennþá hvar ég keyrði heim í snjókomu og myrkri og hlustaði á „Desert Raven“ með Jonathan Wilson í útvarpinu. Þetta passaði allt svo undarlega vel saman. Myndin hafði hreyft við einhverju í mér, einhverjar pælingar í henni sem rímuðu við ósnerta strengi innra með mér sem skyndilega var verið að leika á. Ég hef hugsað reglulega um hana síðan og hvort ég geti ekki fundið leið til að kanna karlmennsku á svipaðan hátt og þessi mynd gerir.
Eitt af betri atriðum myndarinnar kemur snemma í henni, strax eftir flugslysið örlagafulla. Þeir sem lifðu af slysið safnast saman í flakinu og hlúa að stórslösuðum manni sem er augljóslega að blæða hratt út. John Ottway, aðalpersóna myndarinnar, leikinn af Liam Neeson (sem er hér í einu af betri hlutverkum ferils síns) sér strax í hvað stefnir og í stað þess að reyna að vekja með ónefnda farþeganum falsvonir leggur hann hönd sína á hann, nær augnsambandi og segir eins blíðlega og hann getur, „You are going to die.“ Hinn mótmælir af veikum mætti en sættist svo við örlög sín. Ottoway spyr næst, „who do you love?“ og farþeginn fer að tala um Rose, dóttur sína. Hún er sex ára, segir hann. „Leyfðu henni að leiða þig,“ segir Ottway. Og svo fylgist hann með farþeganum yfirgefa samtalið og eyða síðustu stundum ævinnar með dóttur sinni, í huganum, á sínum bestu ævistundum. Þetta er friðsæll dauðdagi.
Um leið og því er lokið missa hinir eftirlifendurnir (allt karlmenn) sig en Ottway heldur ró sinni og fer að hugsa um næstu skref. Við áhorfendurnir sitjum hins vegar þögul eftir, viljum helst fá að setja myndina á pásu og fara í göngutúr. Við þurfum að melta það sem við sáum, dauðdaga sem á fáa sinn líka á hvíta tjaldinu. Enginn hasar, ekkert ströggl, bara samkennd og hreinskilni. Og svo er því lokið.
Í gærkvöldi sat ég með góðum vinum í matarboði og átti góða kvöldstund þar sem við ræddum ýmislegt í stofunni á eftir. Á einhverjum tímapunkti datt ég inn í sögu af öðru áhrifamiklu atriði úr annarri kvikmynd (Molly’s Game, leikstj.: Aaron Sorkin) og ég endursagði atriðið. Ein kona punktaði nafn myndarinnar hjá sér og virtist ákveðin í að horfa á hana, þótt ekki væri ég endilega að reyna að selja henni myndina. Atriðið tengdist stærra umræðuefni sem við vorum að smjatta á.
Svona upplifi ég kvikmyndir. Atriði úr þeim leita á mig á misjöfnum tímum eins og lög á playlista. Ef ég gæti fengið Spotify fyrir kvikmyndaatriði myndi ég örugglega þiggja það fegins hendi, það myndi henta mér vel. Þangað til það býðst verð ég að láta mér nægja að veita kvikmyndum af og til endurhorf til að losna við atriði úr huga mér sem leitað hafa á mig. Þess vegna horfði ég á The Grey í kvöld, í svona fimmta sinn síðan hún kom út, og ég er alveg örugglega að fara að kíkja á Molly’s Game á næstunni.
Þar til næst.