Kæri lesandi,
þetta var ekki með betri sunnudögum, það verður að segjast. Ég vaknaði með ónot í maganum og þurfti að eyða fyrri hluta dags í öruggri nálægð við salernið. Gat ekkert borðað á meðan á þessu stóð og því síður gert neitt af því sem ég hafði ætlað mér í dag. Í raun var þetta hálf glataður dagur.
En! Ég ætlaði aldeilis að bjarga deginum í kvöld því ég hafði planað að heimsækja vin og horfa með honum á tvo NFL-leiki samtímis, bæði liðin okkar voru að spila á sama tíma. Mér tókst að manna mig upp og róa meltingarveginn en það tókst ekki betur en svo að liðin okkar spiluðu bæði hörmulega og töpuðu. Þannig að kvöldstund sem byrjaði vel með fagnaðarfundum endaði á hálfgerðri jarðarfararstemningu. Ég fór enda heim um leið og leikjum lauk. Stundum skilur maður ekki af hverju maður er að leggja það á sig að halda með íþróttaliðum. Það er galið að leyfa erlendum hópíþróttaliðum að hafa svo mikla stjórn á geðheilsu sinni.
Eitt ræddum við þó og það voru góðar þýðingar á erlendu sjónvarpsefni. Við vorum einróma um að besta þýðing sem ratað hefur í íslenskt sjónvarp var þegar erlendu teiknimyndirnar Count Duckula voru þýddir á íslensku sem Brakúla greifi. Brakúla er sennilega einhvers konar Íslandsmet í þýðingu. Snilldarnafn.
Þar til næst.