Kæri lesandi,

við fengum heimsókn hér á skrifstofuna í hádeginu, maður sem sagði farir sínar ekki sléttar. Hann hafði farið á stóra jólatónleika í Reykjavík í gær og var alls ekki hrifinn. Um er að ræða nafntogaða hljómsveit sem stendur ár hvert fyrir röð stórra tónleika við góðan orðstír, þannig að okkar maður átti von á góðu. Engu að síður fannst honum þetta flatt, og þá sérstaklega umgjörðin, of langt hlé og hegðun sumra gesta á svæðinu. Þá fannst honum flutningurinn ekkert spes, en kannski það sem fór minnst í taugarnar á honum á heildina litið.

„Þetta átti að vera hápunktur jólaaðdragandans, en ég fór bara pirraður heim,“ sagði hann.

Ég lenti í dag í viðræðum við félaga minn sem var að gæða sér á klementínum á sinni skrifstofu og sendi mér skilaboð. Ég var fljótur að svara til að ég væri Team Mandarínur, þótt ég hefði ekkert út á klemmur að setja væru þær ekki jafn góðar og möndurnar. Hann sagði að fyrir sér væru klementínur hinn eini sanni jólaboði, sem ég viðurkenndi að væri sami hugur og ég berði til mandarína. „Þetta eru bara jólin fyrir mér, og nú ertu að segja mér að ég hafi verið að borða vitlausa tegund?“ Hann örvænti, hreinlega.

Ég hóf daginn í morgun á að skoða veðurspána fyrir komandi viku. Frosthörkurnar halda áfram, það er ljóst. Föstudagur verður alveg svakalegur ef spáin gengur eftir, ég hugsa að maður þurfi tvær úlpur þann daginn. Um næstu helgi gæti svo dregið til tíðinda hér á suðvesturhorninu, þá gæti snjórinn mætt á svæðið. Snævi þakið Höfuðborgarsvæði yfir hátíðarnar, eru það ekki svolítið jólin?

Jólin eru margt fyrir mörgum og ekki ætla ég að gera upp á milli þessara atriða. Kakóið og teppið við arineld, bók í jólagjöf, jólasveinarnir mættir til byggða (Kolla mín var dugleg að sofna í gær og Stekkjarstaur gaf henni gott í skóinn í nótt!), hlaðborðin og jú Baggalútur, Mariah og Wham, kertaljós og klæðin rauð og klæðin rauð, og svo mætti lengi telja. Þetta eru allt jólin og óþarft að gera upp á milli.

Eins lengi og við gleymum ekki mandarínunum. Þær eru lykilatriði.

Þar til næst.