Kæri lesandi,

Lionel Messi er kominn með Argentínu í úrslitaleik HM í Katar. Synir köldu sólarinnar unnu öruggan 3-0 sigur á Króötum í kvöld og Messi sýndi allar sínar bestu hliðar. 35 ára og kominn aftur á stærsta sviðið, í leikinn sem öllu máli skiptir. Hann er sá besti allra tíma en þetta er það eina sem hann vantar á ferilskrána, og ef hann vinnur HM fyrir þjóð sína eins og Diego gerði þá er þetta útrætt mál. Geitin.

Ég býst hins vegar við að Frakkarnir og Kylian Mbappé standi í vegi hans á sunnudaginn kemur. No big deal.


Ég er að njóta þess í kuldakastinu að horfa á bestu nýju sjónvarpsþættina vestan hafs, Tulsa King með Stallone í aðalhlutverki. Þættirnir eru hugarfóstur Taylor Sheridan, sem er maðurinn á bak við stærstu þættina vestan hafs síðustu árin, Yellowstone (sem við konan horfum á saman þessi dægrin) og Terence Winter, sem var einn aðalhöfundurinn á bak við Sopranos og Boardwalk Empire.

Þessir þættir steinliggja einfaldlega, og í bónus fæ ég loksins góða sjónvarpsþætti frá gamla ríkinu mínu. Ég heimsótti Oklahoma-fylki veturinn 2000 og bjó þar í þrjá mánuði haustið 2001, í bænum Muskogee sem er svipað langt frá Tulsa og Hvergerði er frá Reykjavík. Ég fór oft til Tulsa og skemmti mér vel í þeirri borg, þannig að það er gaman að sjá hana loks í aðalhlutverki.


Annars er svo kalt úti þessa dagana að ég er að spá í að sofa í náttfötum og sokkum í nótt. Ég þigg samt þennan fimbulkulda fram yfir snjóinn, svo því sé haldið til haga.

Þar til næst.