Kæri lesandi,

ég bregst við fimbulkuldanum sem liggur nú á landinu með því að skoða úlpur á vefverslunum. Ég á þrjár úlpur, en samt var ég næstum búinn að panta mér aðra fyrir hátt í hundrað þúsund krónur í morgun án frekar umhugsunar. Ég er kappklæddur utan dyra og kuldinn bítur lítið á mér en ég er samt búinn að sannfæra sjálfan mig um að hamingja þessa heims verði ekki mín nema ég eignist fjórðu úlpuna.

Ég hef ákveðið að kenna auglýsingabransanum um þessar langanir mínar. Helvítis kapitalisminn o.sv.frv. Það er allavega alveg á hreinu að ég er ekki haldinn kaupæði. Nei svona í alvöru. Þú verður að trúa mér, lesandi kær. Ég hef sjálfsstjórn. Alveg satt.


Talandi um stjórn á hugsunum. Ég fékk veiruna skæðu í febrúar á þessu ári, tveimur árum eftir að hún birtist fyrst á eyjunni okkar fögru. Hún lagðist yfir alla fjölskylduna, tók okkur fjögur tæpar tvær vikur að vinna úr þessu, eitt af öðru. Ég var númer þrjú í röðinni, var heima og hjálpaði konunni og eldri dóttur í gegnum þetta fyrst og svo fengum við yngri dóttirin þetta. Ég slapp betur en eiginkonan, þetta var svona 40 tíma hörkuflensa hjá mér og svo búið en hún var með þetta lengur og þurfti á endanum sýklalyf til að losna við líkamleg einkenni. Þannig að ég hrósaði happi og við glöddumst, litla fjölskyldan, yfir að þetta hafi allavega ekki reynst verra. Við höfðum heilsuna okkar og hvort annað, sem er ekki sjálfgefið á þessum síðustu og verstu.

Nema hvað, síðan eru liðnir tíu mánuðir og það hafa runnið á mig tvær grímur. Ég hef fundið fyrir breytingum hjá sjálfum mér allt þetta ár sem ég á mjög erfitt með að tengja við eitthvað annað en eftirköst veirunnar. Til dæmis er minnið allt í einu ekki eins og það var, sérstaklega á ég erfitt með að muna nöfn, svo mjög að fólk í kringum mig tekur eftir því. Annað sem hefur hrjáð mig allt þetta ár er einbeitingaleysi. Ég les minna og hægar en áður og ég hef enga eirð í mér til að sitja lengi við skriftir eða verkefnavinnu, þarf að gera oftar hlé á störfum áður en ég brenn yfir um. Þá hef ég verið að fá fleiri hausverki og verið viðkvæmari fyrir sjónrænu áreiti. Ég er einmitt á leið til augnlæknis að skoða það í janúar. Og svo er það hjartabröltið, en ég er ekki tilbúinn að tengja það við veiruna að svo stöddu, ekki þegar ég er með aðrar skýrari ástæður fyrir því brölti.

Ef ég væri spurður í dag myndi ég hiklaust segja að ég hafi lent í þessu svokallaða long-Covid, þar sem eftirköstin virðast hafa valdið mér meiri usla en veirusóttin sjálf sem entist varla í tvo daga. Veiran rændi mig talsverðu af þreki og það tók 3-4 vikur að koma aftur en eftir það hefur þetta aðallega verið hausinn á mér sem er skrýtinn. Ekki verri, bara skrýtinn. Ég myndi alveg þiggja að geta setið við harkið tímum saman á ný eins og ég gat þar til fyrir skemmstu.

Ég ætla í fjórðu sprautuna í næstu viku, á pantaðan tíma. Ég hugsaði mig aðeins um hvort ég þyrfti hana, eftir þrjár sprautur og smit, en ég hef ekkert fengið í tíu mánuði og þessi mögulegu eftirköst sannfærðu mig um að það væri betra að vera almennilega varinn fyrir öðru smiti en að hafa áhyggjur af bóluefninu (sem ég hef alls ekki).

Þar til næst.