Kæri lesandi,

í gær lauk ég við eina af betri bókum sem ég hef lesið í ár. Um er að ræða bandaríska spennutryllinn Strangers on a Train eftir Patriciu Highsmith. Þessi bók kom út árið 1950 og var fyrsta skáldsaga höfundar, en Highsmith átti eftir að eiga víðfrægan feril þar til hún lést á tíunda áratug síðustu aldar. Hún var aðeins 29 ára þegar þessi fyrsta bók hennar kom út, en Alfred Hitchcock gerði fræga kvikmynd eftir bókinni nokkrum árum síðar.

Ég veit ekki af hverju en ég átti ekki von á að Strangers on a Train væri svona góð. Þessi bók er algjörlega mögnuð. Hugmyndin er einföld – tveir ókunnugir menn hefja samtal um borð í lest á milli landshluta í Bandaríkjunum, fljótlega snýst samtalið að fólki sem fer í taugarnar á þeim og áður en yfir lýkur hefur annar þeirra fengið þá hugmynd að þeir myrði fyrir hvor annan og losi sig þannig við fólk sem stendur í vegi fyrir hamingju þeirra. Þetta sé jú einu sinni hinn fullkomni glæpur, báðir verði með fjarvistarsannanir og engin tengsl við hinn sanna morðingja.

Galdurinn hér er hversu nálægt sögupersónunum Highsmith heldur sig. Við erum nær alla bókina með söguhorn þeirra Guy Haines og Charles Bruno til skiptis, sitjum á öxl þeirra og heyrum hugsanir þeirra. Guy er framamaður á sviði arkitektúr og alls ekki til í ráðabrugg hins drykkfellda Bruno sem fær Guy og líf hans á heilann. Við kynnumst fólkinu í kringum þá, sérstaklega þremur konum sem hafa talsverð áhrif á líf þeirra og hamingju, en Guy og Bruno eru í algjöru aðalhlutverki hérna, enda báðir gerendur en þó á gerólíkan hátt í samfélagi sem trúir einfaldlega ekki að svo dannaðir og efnaðir menn séu færir um voðaverk.

Hryllingur bókarinnar fer að mestu leyti fram innra með þeim tveimur og það verður að segjast afrek hversu vel tæplega þrítug Highsmith gat sett sig í spor tveggja karla af sömu stétt en prýdda gjörólíkum mannkostum árið 1950. Ef karlmaður hefði skrifað þessa bók hefði hún þótt frábær en ekki endilega jafn mikið afrek (og ef karlmaður hefði skrifað hana í dag hefði hann sennilega verið skammaður fyrir svo karllæg sjónarmið og fyrir að falla á Bechdel-prófinu, en það er annað mál), en ég er raunar þeirrar skoðunar að fáir karlmenn hefðu getað skrifað af þeirri næmni sem Highsmith beitir við innsýn sína í hugarheim Guy og Bruno. Þetta er með betri glæpasögum sem ég hef lesið um ævina.

Ég ætla svo að horfa á mynd Hitchcock um hátíðarnar, fyrir samanburðinn.


Annars er jólabókaflóðið hafið, enn eitt árið. Ég er þegar búinn að lesa þrjár bækur. Dauðaleit eftir gamla skólafélaga minn Emil Hjörvar Petersen er frábær spennutryllir með yfirskilvitlegu ívafi á meðan Eitt stakt orð eftir Snæbjörn Arngrímsson er óvenjuleg ráðgáta dulbúin sem lífskrísa ungrar konu dulbúin sem glæpasaga. Ég hafði virkilega gaman af óhefðbundinni nálgun Snæa á spennusögu og vissi í raun ekkert hvað hafði virkilega gerst fyrr en á lokablaðsíðunum, sem er afrek þegar ég er annars vegar.

Best af þeim þremur fannst mér þó Dáin heimsveldi eftir Steinar Braga, hreinræktaður vísindaskáldskapur sem hefst á Íslandi og teygir anga sína út fyrir sporbaug jarðarinnar. Hugðarefni Steinars að þessu sinni eru mýmörg – náttúruvernd, samruni mannsins og tækninnar, geimferðalög og mögulega geimverur – en honum ferst þetta allt stórvel úr hendi og í raun er algjört afrek hvað hann nær að sjóða þetta allt saman í frábærlega vel skapaðan sagnaheim og spennandi frásögn, sem ofan á allt annað er óvænt og æsispennandi þar til í blálokin. Þessi bók var að sjálfsögðu ekki tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna, enda bara skítugt sci-fi sorprit, en ég verð hreinlega hissa ef ég les betri íslenska skáldsögu sem kemur út á þessu ári.

Næst bíður mín skáldsagan Lungu eftir Pedro Gunnlaug García, sem er sannarlega tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna, og mjög vel að því komin ef marka má umsagnir. Ég hlakka til. Í bílnum hlusta ég svo á Mystic River eftir Dennis Lehane. Ég þekki kvikmyndina auðvitað vel en bókin hefst engu að síður frábærlega og ég hlakka til að hlusta næstu daga.

Þar til næst.