Kæri lesandi,

frosthörkurnar síðustu daga voru aðeins upphitun fyrir snjóinn sem mun ráða öllu hér á eyjunni næstu vikur og mánuði. Samkvæmt nýjustu veðurspám mun snjórinn mæta hér á sv-hornið með látum í kvöld. Gljái frostsins á öllu mun víkja fyrir hvítri ábreiðu og þá er veturinn kominn. Hvít jól og allt það, ég á erfitt með að vera eitthvað rómantískur yfir þessu, meðvitaður um allt brasið sem fylgir snjónum fram í febrúar eða mars. En svona er þetta, lífið á eyjunni í norðurhöfum, ekkert sem kemur okkur á óvart. Það er bara komið að þessu.


Annars ríkir annað ástand hér á eynni. Flensa, nóróveiran skemmtilega og auðvitað heimsfaraldurinn. Þetta er einhvern veginn allt í kringum mig og ég hef beðið eftir að veikjast sjálfur en af því hefur ekki orðið enn. Mér líður eins og ég standi í miðju svikalogni og berjist við að dirfast ekki að halda að ég sleppi við storminn. Ég bara hlýt að veikjast fljótlega. En samt bólar ekkert á því, og þá leyfir maður sér að hugsa hvort maður sé kannski ofurmenni, ósigrandi og óstöðvandi. Og svo fæ ég brjóstsviða, eða hausverk, eða þarf að hnerra, einhverja harkalega áminningu um viðkvæmt jafnvægið í samlífi spendýra og örveranna allt í kringum okkur.


Helgin er framundan og ég er hálftómur. Sé bara verkefni fyrir þessi jólin, frekar en einhverja rómantík. Samt er flestu lokið, ef jólin kæmu fyrirvaralaust í dag þyrfti ég að bruna út og kaupa jólasteikina og kannski eina gjöf, og ég myndi helst af öllu vilja ryksuga heima áður en við hringdum inn jólin. Meira þarf ekki að gera, en samt vex þetta mér í augum og ég kemst illa í jólaandann. Ég er vandamálið hérna, ekki jólin.

Ég hugsa að það sé skynsamlegast að loka gluggunum, draga fyrir, laga kakó, fara í náttfötin og horfa á jólamyndir með kettina í fanginu, helst alla helgina. Það er ekkert víst að það klikki.

Þar til næst.