Kæri lesandi,
snjórinn kom. Allur snjórinn. Einn vinur minn sagði á Andritinu að “himnarnir komu niður í heilu lagi” og það er ágætis lýsing. Við áttum von á snjókomu, veðurspáin var uppfærð seint á fimmtudagskvöld þannig að við vissum með sólarhrings fyrirvara að þetta væri á leiðinni. Það voru allir klárir með skóflurnar, öllum bílum skynsamlega lagt, matarinnkaupin kláruð og svo mátti helgin koma.
Ég fór á fætur um áttaleytið í morgun og leit út. Nágranni minn var þegar byrjaður með aðra snjóskófluna, ég hentist í föt (drakk vatnsglas fyrst) og stökk út og hófst handa með hina. Það tók okkur svona tvo tíma að hreinsa planið og aðgengi að öllum hurðum, allt á meðan enn snjóaði svo að fennti í þegar leið á daginn og við urðum að hreinsa þetta til aftur síðdegis, sem var talsvert léttara. Um hálfellefuleytið í morgun kom ég inn, svo mikill snjór í skegginu að yngri dóttir mín kallaði mig Hurðaskelli (ekki að ástæðulausu, bölvaður brussugangur í manni stundum) og ég svo kaldur að ég skreið beint undir heita sturtuna og fékk kuldakláða víðs vegar um líkamann þegar hann fór að hitna.
Síðdegis fór ég svo með unglinginn í Smáralind þar sem hún þurfti að reyna að búa sér til einhvern óskalista fyrir jólagjafir. Verslunarmiðstöðin var einfaldlega stappfull af fólki, allir að hugsa það sama í snjónum og ófærðinni en samt er maður alltaf hissa að aðrir skuli hafa lagt á sig að fara í bæinn eins og við. Þar elti ég unglinginn í tæpa tvo tíma á meðan hún ilmaði af kertum og kremum, tók myndir af fötum og fletti bókum.
Nú er hætt að snjóa en vindurinn feykir þessu í allar áttir svo að skyggn er lítið. Það er enda ekkert á dagskrá en að hanga eins mikið innandyra og hægt er þessa helgina. Á morgun ræðst hvaða lið vinnur HM að þessu sinni, ég tippa á Frakkland (sorrý Messi).
Þar til næst.