Kæri lesandi,

HM í knattspyrnu lauk með látum í dag þegar Frakkar og Argentínumenn léku einn besta úrslitaleik allra tíma í Katar. Lokatölur 3-3 eftir að Argentínumenn leiddu tvisvar (2-0 eftir 70 mínútur, 3-2 í framlengingu) en þeir argentínsku höfðu betur í vító og fögnuðu gríðarlega í leikslok.

Fyrir leikinn hafði öll umfjöllun snúist um „einvígið“ á milli Lionel Messi og Kylian Mbappe. Sá besti allra tíma gegn þeim besta í dag. Yfirleitt fer slík umfjöllun í taugarnar á mér þar sem knattspyrna er liðsíþrótt og langt því frá svo einföld að liðið með besta leikmanninn vinni alltaf. Í þetta sinn reyndist þessi einfalda greining hins vegar hárrétt. Messi skoraði tvö og var arkitektinn að því þriðja hjá Argentínu, en það mark var stórkostlegt og eitt besta mark sem hefur verið skorað á HM í knattspyrnu. En einmitt þegar allt leit út fyrir þægilegan og afgerandi sigur Argentínumanna vaknaði Mbappe og hlóð í þrennu. Mbappe er stórkostlegur leikmaður og þegar maður fær að bera hann augum man maður hvað það er sorglegt að hann leiki „bak við luktar dyr“ eins og einn félagi minn orðaði það. Hann er jú enda í gríndeild sem fær ekkert áhorf utan heimalandsins, Frakkland, þar sem hann og félagar í PSG (hvar Messi leikur einnig þessa dagana) eru í áskrift að verðlaunum. Mbappe gæti staðið uppi sem sá besti sem hefur leikið knattspyrnu, jafnvel betri en Messi, en til þess þarf hann að koma sér í umhverfi með meiri samkeppni. Þetta mót minnti okkur á ógurlega hæfileika drengsins.

Við sem horfum mikið á knattspyrnu þekkjum öll ódauðlega ljósmynd sem var tekin af Diego Armando Maradona í Mexíkóborg sumarið 1986. Þar situr hann á öxlum liðsfélaga síns með sigurstyttuna hátt á lofti, umkringdur fréttamönnum og ljósmyndurum og liðsfélögum og áhorfendum á troðfullum velli í Mexíkó. Hann hafði leitt Argentínu til sigurs á HM í annað sinn í sögu þjóðarinnar og það með frammistöðu sem var á köflum svo mögnuð að hún er nánast upphafið að trúarbrögðum í Argentínu. Enginn hefur nokkru sinni átt HM eins og Maradona sumarið ’86, fyrr eða síðar.

Þangað til núna. Argentínumenn töpuðu óvænt fyrsta leiknum á mótinu gegn Sádi-Aröbum en svo hrukku þeir í gang og hafa unnið alla leiki síðan. Aðeins galnar tíu mínútur gegn Hollandi og galið kortér gegn Frökkum í dag þar sem þeir litu ekki út eins og langbesta liðið á vellinum, þannig að þeir eru vel að sigrinum komið þótt vítaspyrnukeppni hafi þurft til. En það sem situr eftir í minningunni er mögnuð frammistaða Messi sem var aðeins aftar á vellinum en hann er vanur, togaði þar í strengina og stýrði samleik Argentínumanna. Hann er með flestar stoðsendingar á mótinu og einu marki minna en Mbappe, en það sem er magnaðast er að hann varð fyrsti leikmaðurinn í sögu HM til að skora mark í riðlakeppni og öllum stigum útsláttarkeppninnar, þar á meðal úrslitaleiksins. Þetta var hans mót og nú er endanlega staðfest það sem flestir (sem ekki tilheyra költinu í Manchester, þ.e.a.s.) hafa lengi vitað: Lionel Andrés Messi er besti knattspyrnumaður sögunnar. Við höfum aldrei séð annað eins og þennan litla gaur sem getur allt.

Það var því við hæfi að við fengjum myndina hér fyrir ofan af Messi á öxlum liðsfélaga síns, umkringdur fréttamönnum og ljósmyndurum og liðsfélögum og áhorfendum á velli í Katar, með sigurstyttuna hátt á lofti. Hann er kóngur dagsins.

Ég hjó einnig eftir því að það er Sergio „Kun“ Aguero sem er með liðsfélaga sinn á öxlunum. Aguero er auðvitað einn besti knattspyrnumaður sinnar kynslóðar, hefur verið liðsfélagi Messi í landsliðum Argentínu frá unglingsaldri og hans besti vinur. Aguero lék ekki á HM í ár þar sem hann neyddist til að leggja skóna á hilluna í fyrra vegna hjartavandamála. Ef það hefði ekki komið til hefði hann verið í fremstu víglínu með vini sínum, en áhrif hans á frammistöðu Messi og Argentínu í mótinu skal ekki vanmetið. Aguero var liðsfélagi Messi eins og alltaf í þessu móti, þrátt fyrir að vera ekki í leikmannahópnum, og hefur verið drjúgur hluti af liðsheildinni í kringum leikmennina. Að hann skuli hafa komið niður á völlinn til að lyfta vini sínum upp í hæstu hæðir, meðvitaður um hversu mikilvæg myndin af Messi fyrir ofan fjöldann væri fyrir þjóðarsál Argentínu, er fallegt. Gracias, Kun.

Þetta var annars undarlegt mót. Hér mættist allt hið fallegasta sem íþróttin hefur upp á að bjóða – nefnilega knattspyrnan sjálf í öllu sínu ríkulega veldi – og flest það ljótasta. Katarar hefðu fyrir það fyrsta aldrei átt að fá að halda þetta, það er einfaldlega galið að smáríki, nánast borgríki, fái að halda allt mótið á svæði sem nemur einni borg. Tilhugsunin um HM í knattspyrnu bara í London eða bara í París er galin, og því óskiljanlegt að þessi ákvörðun hafi verið tekin. Síðan bætast við ömurlegar fréttir síðustu árin af meðferð Katara á verkamönnum sem voru fluttir til landsins til að byggja vellina og öryggi þeirra virt að vettugi, þeir jafnvel nauðugir í vinnu og á lúsarlaunum. Svo kom stærsti mótmælahvellurinn rétt fyrir mót þegar ljóst var að Katarar ætluðu ekkert að slaka á mannfyrirlitslegri stefnu sinni gagnvart hinsegin og kynsegin fólki. Talsmaður Katara sagði í vikunni áður en mótið hæfist að það væri ákjósanlegt ef fólk gæti sleppt því að vera hinsegin rétt á meðan það heimsækti Katar, eða orð nokkurn veginn í þá áttina.

En svo hófst mótið og mótmælin véku fyrir knattspyrnunni, eins og allir vissu og Katarar veðjuðu á. Fyrsta umferð riðlakeppninnar var frekar dauf en svo lifnaði mótið við með látum og hefur verið stanslaus veisla bestu knattspyrnunnar síðan þá, og úrslitaleikurinn magnaði í dag var rúsínan í pylsuendanum. Eftir stöndum við knattspyrnuunnendur með eftirminnilegt knattspyrnumót, ódauðlegan úrslitaleik og óbragð í munni. Megi peningarnir aldrei aftur saurga joga bonito með þessum hætti.

Það var í raun viðeigandi endir á mótinu þegar Argentínumenn höfðu allir komið sér fyrir á sigurpallinum með medalíur og Messi átti að veita bikarnum móttöku sem fyrirliði þeirra. Þá hófu prinsarnir í Katar skyndilega að klæða hann í bisht, eins konar gegnsæjan slopp að sið heimamanna. Messi virtist alveg sama og leyfði þeim að klæða sig í þetta áður en hann tók bikarinn og hóf hann svo á loft umkringdur liðsfélögum sínum.

Eftir á kom skýringin; Katarar höfðu víst sótt hart að fá að vera með og sýnilegir í lyftingu bikarsins en ekki orðið að ósk sinni. Bikarafhendingin er stund sigurliðsins og á ekki að vera pólitískt sjónarspil þeirra sem halda mótið. Það tróð enginn Hugo Lloris og Frökkum í rússneska búninga fyrir bikarafhendinguna fyrir fjórum árum, og ég efast um að menn verði látnir bera kúrekahatta eða eitthvað í Bandaríkjunum eftir fjögur ár. En hér var Messi troðið í katörsk klæði fyrir bikarlyftinguna og sást þar bersýnilega sem við höfum alltaf vitað, að heimamönnum er skítsama um íþróttina eða að virða hana sem slíka. Sagan skiptir þá engu máli, þetta var bara kostuð auglýsing fyrir þjóð sem er lítil á landakorti en virðist enn minni af mannkostum, allavega af æðstu ráðamönnum þjóðarinnar að dæma. Við dæmum auðvitað ekki heila þjóð af því hvernig ráðamennirnir láta, en það verður að viðurkennast að framganga æðstu Katara fyrir og á meðan á þessu móti stóð hefur ekki verið þeim sú jákvæða auglýsing sem þeir óskuðu sér.

Hvað um það. Ömurleg umgjörð fyrir stórkostlega knattspyrnu og að mínu mati sigraði rétt lið að lokum. Þeirra er stundin, dýrðin og fögnuðurinn. Það verður gaman að sjá fréttamyndir frá heimkomu þeirra til Buenos Aires á morgun. Vamos Argentina!

Þar til næst.