Kæri lesandi,

þetta hefur verið frekar óhefðbundinn mánudagur. Ég vann á heimaskrifstofunni vegna veðurs, þar sem fólki var ráðið frá því að keyra Reykjanesbrautina í hvassviðrinu í dag. Skyggni lítið og aðstæður varhugaverðar, sögðu þau. Samt hefur verið fínasta veður í hverfinu hér heima í allan dag, peysuveður. Ég fór út og mokaði aðra umferð á planinu til að hafa það sem auðast fyrir jólin, hreyfði bílana líka og hlóð vinnuþjarkinn. Konan fór í búð og keypti aðföng fyrir næstu daga, það stefnir allt í að ég vinni heima á morgun þannig að við þurfum þá amk ekki að fara óþarfa ferðir út úr hverfinu. Allur er varinn góður þegar landið lætur svona.


Fyrir helgi birtist á YouTube spjall milli leikstjóranna Martin McDonagh og Taylor Swift. Já, leikstjóra, Swift hefur leikstýrt frægum tónlistarmyndböndum (þar á meðal “All Too Well” stuttmyndinni sem olli talsverðum usla í fyrra) og er held ég að fara að leikstýra kvikmynd. Nema hvað, ég hjó eftir ansi frábærri samlíkingu Swift þegar hún talaði um fullkomnunaráráttu sína. Hún sagði að það að vera of lengi með öll sköpunarverk sín af ótta við að gefa eitthvað ófullkomið út væri eins og að fægja hurðarhúninn endalaust en opna aldrei hurðina.

Mér fannst það frábært sjónarhorn á þennan leiða vanda sem hrjáir okkur bæði, mig og Taylor Swift. Hún er samt öllu duglegri en ég að senda hluti frá sér, það verður að segjast.

Ég er að hugsa um að ljúka deginum á að horfa á fyrirlestur bandaríska pistlahöfundarins John Jeremiah Sullivan, sem ég hef miklar mætur á. Hann hefur gefið út tvö esseyjusöfn sem eru bæði frábær og ég hef beðið í fjölda ára eftir meira efni frá honum. En nú er sem sagt birtur nýr fyrirlestur hans á YouTube og ég ætla að vera “viðstaddur”.

Þar til næst.