Kæri lesandi,

ég rakaði af mér allt hár og skegg í kvöld. Ég veit ekki hvað það er með áramótin en þegar maður fer að leiða hugann að uppgjöri ársins og/eða nýju upphafi þess næsta þá brjálast ég jafnan og tek af mér allt skegg, helst allt líkamshár. Þetta er örugglega stórundarlegt, ég tæki augabrúnirnar líka ef ég gæti. Þetta er einhver tilfinning, eins og ég verði að losa mig við allt sem tilheyrir gömlu ári og mæta tímamótunum á eins miklum núllpunkti og ég get.

Ég skrifaði um þetta á síðasta degi ársins 2019 hér á síðunni og tók við það tilefni sjálfu sem ég birti aftur hér að ofan. Það hefur lítið breyst, andlitið verður alltaf svo brútal fyrstu tvo dagana eftir alrakstur. Þegar þetta er ritað blæðir úr mér á þremur stöðum á höfðinu. Lítið en eitthvað þó.

Annars er lítið að frétta. Reykjanesbrautin var aftur lokuð í dag og ég vann heima, á meðan ferðaþjónustan á Íslandi sturlaðist. Samgönguráðherra er í nauðvörn, lofar betrumbótum og heldur því fram að þetta ítreki mikilvægi Reykjavíkurflugvallar. Whatever, dude. Epli og appelsínur. En mér skilst að við fáum að keyra brautina í fyrramálið svo að ég fer og tek … takmarkaðan dag á skrifstofunni. Ég þarf að hætta snemma og mæta í bólusetningu. Covid-boost, fjórða sprautan, allur er varinn góður og svo framvegis.

Í dag fór ég á nokkra staði og kláraði megnið af jólagjafakaupum ársins. Það var sturlað mikið af fólki að versla. Jólin eru svo dýr, þetta er líka svo mikið stress og allir með gátlistana á lofti að tékka við nöfnin og hlutina og atriðin. Er þetta ekki meingallað dæmi svona í grunninn? Getum við ekki bara sleppt þessu og prjónað vettlinga og sokka á hvert annað árlega? Nei ég bara spyr.

Þar til næst.