Kæri lesandi,
ég keyrði Reykjanesbrautina í dag, sem og Sandgerðisafleggjarann alla leið út á skrifstofu. Þegar ég mætti suður með sjó var enn ekki búið að ryðja alla leið niður á höfn svo að ég varð að leggja ofar í götunni og vaða snjó til að komast inn í hús. Tveimur klukkustundum síðar gat ég fært bílinn á nýskafið bílaplanið og hlaðið hann.
Síðdegis fór ég svo í bólusetningu fyrir Covid. Fjórða sprautan svokallaða, og eigum við ekki bara að vona að hún verði sú síðasta? Vík burtu, veira, og allt það. Þessi sprauta fer ágætlega í mig, ég er aðeins aumur á öxlinni í kringum stungusvæðið en annars virðist þetta ætla að sleppa.
Á morgun ætla ég aftur að mæta til vinnu. Einn dagur enn og svo hefjast stystu jól sem dagatalið getur boðið uppá – fjögurra daga helgi, fyrir mikið af fólki jafnvel bara þriggja eða tveggja daga helgi. Ég verð þó í fríi bæði á Þorlák og annan dag. Þakklátur fyrir það.
Ég er búinn að ætla að skrifa ársuppgjör í tónlist eins og ég er vanur en hef ekki alveg komið mér til þess síðustu daga. Ástæðan er sú að ég er enn að hlusta yfir ýmislegt af “tilnefndri” tónlist og rökræði við sjálfan mig hvort þetta eða hitt hljóti náð eða ekki. Ég er einvaldur hér en það er ekki þar með sagt að valið sé einfalt. Ég er einvaldur en ekki einfaldur, heh.
Heilt yfir sýnist mér þetta hafa verið slappt ár í rokkinu en frábært ár í flestu öðru. Ég tek þetta saman á næstu dögum, þegar ég er búinn að útkljá stóru rifrildin við sjálfan mig.
Þar til næst.