Kæri lesandi,
við erum í miðri jólavikunni og enn og aftur er ófremdarástand á sviði íslenskra bókmennta. Rithöfundar æða um eins og naut í ati og reyna allt hvað þau geta til að vekja á sér og verki sínu athygli. Úthlutun listamannalauna fyrir komandi ár eru kynnt og þá brjálast nokkrir eins og venjulega yfir því hvað þeir fá lítið, og aðrir yfir því hvað fólk fær yfirhöfuð mikið borgað fyrir að stunda hobbíið sitt, og aðrir þykjast kúl á því og segjast ekki þurfa launin, þau skrifi nú bara fyrir sig sjálf og verði ykkur að góðu. Bækurnar seljast misvel en enginn þorir að viðurkenna slæma sölu, það getur þýtt tafarlausa hneisu og endalok ferilsins sem fólk hefur unnið hörðum höndum að árum saman. Kaupendur nenna ekki einu sinni í bókabúðir, grípa bara sinn glæpakóng eða drottningu með skinkunni í Bónus og kannski eina fyrir börnin líka. Konráð fyrir mig, Lára og Ljónsi fyrir dæturnar (tölvuleiki fyrir synina, að sjálfsögðu, strákar lesa ekki), tiramisu í eftirrétt og einn snakkpoka. Skannað og skundað. Pælum ekkert í þessu. Og á meðan sitja rithöfundarnir í örvæntingu við eldhúsgluggana sína og undrast yfir þögninni. Ég skrifaði bók, af hverju greip samfélagið ekki andann og snarstöðvaðist?!
Þetta er svo mikil örvænting. Ég hafði séð þetta áður en eftir að hafa lagt þessa þeytivindu á mig sjálfur fyrir sex árum sé ég merkin miklu skýrar. Ég sé í gegnum höfundana sem setja upp kúlið og láta eins og þau séu að sigla lygnum sjó í gegnum flóðið en ég veit betur, veit að jafnvel nafntoguðustu höfundar landsins láta bjóða sér nánast hvað sem er til að geta mögulega selt fimm bækur í viðbót eða eitthvað. Ég veit líka fyrsthendis hversu fáránlegt það er að öllum höfundum landsins sé sturtað ofan í sama skurðinn kortér í jól og sagt, sink or swim motherfuckers, þegar hinir tíu mánuðir ársins liggja nánast ósnertir. Við höfum vanið okkur á þetta og látum eins og það sé engin leið að breyta þessu, eins og tröllin muni éta okkur ef við vogum okkur að halda úti bókmenntamenningu (og umfjöllun, hugsið ykkur!) á landinu frá janúar til október.
Þetta gæti verið svo miklu betra. Flóðin væru fleiri og smærri – páskar, sumarbyrjun, haustið, jólin – og þess á milli væri stöðug umfjöllun um bækurnar sem koma út í hverri viku. Við höfum enda fimmtíu og tvær slíkar en notum varla nema tíu af þeim. Það er eins og við höldum að almenningur vilji ekki vita af bókum hinar fjörutíu vikurnar? Ekkert af þessu meikar sens. Og hugur minn er, skiljanlega eftir mína reynslu, ár hvert hjá þeim höfundum sem gefa út góð og verð rit í vetrarbyrjun en selja ekkert af þeim af því að þau fá enga umfjöllun og gleymast nánast jafnóðum og þau koma út. Og svo kvartar bókafólk yfir skorti á umfjöllun um bækurnar, en svarið er augljóst. Það þýðir ekki að halda úti umfjöllun sem enginn les eða hlustar á eða horfir á nema í tvo mánuði af tólf. Meira að segja Kiljan fer í sumarfrí, enda pælir enginn í bókum á sumrin, er það nokkuð?! (Persónulega væri ég miklu líklegri til að mæta á upplestra eða viðburði á sumrin en í snjónum og myrkrinu rétt fyrir jól, en það er kannski bara ég.)
Mig langar í svona fimmtán bækur fyrir þessi jól. Ég læt það þó ekki eftir mér, bæði skortir mig tíma til að lesa fimmtán skáldsögur og annað eins af ljóðum á tveimur mánuðum og svo er þetta fokdýrt (þess virði þó, ég kvarta ekki yfir að höfundar og útgefendur fái borgað fyrir alla vinnuna, hana þekki ég vel, en það er ekki fyrir meðalfólk að kaupa fimmtán íslenskar skáldsögur á nokkrum vikum). Þess í stað hef ég temprað mig, les kannski 3-5 bækur sjálfur á okt-des tímabilinu og panta svo eina vel valda í jólagjöf. Það er einmitt staðan núna, ég er að vinna í fimmtu bókinni sem ég les í þessu flóði (keypti þær allar, tími ekki meiru) og þykist nokkuð viss um hvaða bók bíður mín undir trénu góða. Hinar tíu bækurnar eða svo af þessum fimmtán sem mig langar í, þær vaða bara marvaðann og vona að ég komi aftur að þeim seinna, fyrst ég náði þeim ekki í flóðinu. Og ég mun kannski kíkja á tvær eða þrjár af þeim, en hinar gleymast, ég gleymi að þær eru til af því að enginn er að minna mig á þær og ég enda á að lesa þær aldrei. Bækur sem ég hefði lesið ef ég hefði fengið þessar fimmtán með reglulegu millibili yfir árið.
Á næsta ári langar mig samt að prófa að breyta þessu. Breyta lestrarvenjunum, sem yrði þá ekki í fyrsta skipti. En þessi stöðugi eltingarleikur nýrra bóka, þar sem manni liggur á að lesa það sem er svo nýtt og ferskt og heitt, hann fer illa í mig. Bækurnar liggja á mér eins og myllusteinar, elta mig á röndum. Ég ætla að reyna að lesa aðeins minna og ákveðnar, byrja á aðeins færri bókum og bæta þannig hlutfall þeirra bóka sem ég lýk á vs þær sem ég byrja á. Hillurnar heima hjá mér eru fullar af bókum sem ég hef opnað, lesið kannski 50 bls og lagt svo frá mér og sagt mér að ég klári fljótlega, ég ætli bara að lesa þessa hérna fyrst. Og svo fer ég aldrei til baka og klára.
Ég er að vinna í smá lista yfir bækur sem ég ætla að lesa. Ég ætla að ákveða þetta svona mánuð fram í tímann og lesa eftir fastri áætlun, hætta að flakka á milli og hætta að kaupa bækur á meðan ég á svo margt gott ólesið heima. Lesa færri bækur, og minna af glænýjum bókum, taka færri sénsa á hvað er gott og hvað ekki. Finna leið til að njóta lestursins á ný, ég hef ekki notið mín eins mikið síðustu 2-3 árin og áður.
Svo ætla ég að skrifa bók og gefa út um hásumar, af því að jólabókaflóðið er ömurlegt.
Þar til næst.