Kæri lesandi,
mikið tuðaði ég svakalega í síðustu færslu. Eftir að ég birti hana fór mig að ráma í að ég hefði skrifað yfir mig um sama málefni áður, þannig að ég fletti aðeins upp í sarpinum og jújú, ég skrifaði nánast orðrétt sama gagnrýnisrausið um jólabókaflóðið fyrir þremur árum. Skoðun mín hefur sem sagt ekkert breyst, en ég geri heldur ekkert nema röfla yfir því. Þannig að ég fór skyndilega að blygðast mín fyrir að vera svona mikill tuðari, þrátt fyrir að standa við allar skoðanir sem ég setti fram í báðum tuðpistlunum. Þannig er nú það.
Í gær var Þorláksmessa og það var svo mikið að gera að ég gleymdi að skrifa á síðuna. Þar með braut ég hlekk úr keðjunni sem ég var að reyna að teygja hér óbrotna á milli síðasta dags nóvembermánaðar, þegar ég hóf að blogga aftur eftir langt hlé, og áramóta. Ég ætlaði að skrifa á hverjum degi í desember og sjá svo til á nýju ári, en það er nú farið. Ojæja. Ég held samt ótrauður áfram.
Við hjónin horfðum með unglingnum okkar á Knives Out: The Glass Onion á Netflix seint í gærkvöldi. Hún var feykiskemmtileg og góð, óvænt og fyndin og skrítin og fáránleg og aðeins meira óvænt. Kvöldið áður horfðum við hjónin á The Banshees of Inisherin, nýjustu kvikmynd Martin McDonagh, og hún olli heldur engum vonbrigðum. Mögulega horfði ég þarna á tvær skemmtilegustu myndir ársins back-to-back, svo ég leyfi mér að sletta aðeins. Svo er ég dottinn inn í The House of the Dragon, nýju Game of Thrones-þáttaröðina sem var loksins að detta inn á íslenskar streymisveitur. Ég elska þessa þætti, finnst þetta frábært eftir um hálfa seríu, og verð að segja að ég fíla þessa þætti betur heldur en The Rings of Power-þættina á Amazon. Bæði gott, samt, en drekasögurnar eru meira fyrir mig, held ég. Kannski er bara of erfitt að bæta við heim Tolkien, nema þú heitir J.R.R. Tolkien.
Nú sit ég hér og blogga smá á meðan dætur mínar klæða sig í sparikjólana. Kalkúnninn mallar í ofninum, pakkarnir eru komnir undir jólatréð og kettirnir sofa sínu væra í fletinu sínu. Þegar ég lýk við þessa færslu ætla ég að kveikja á góðri jólatónlist, sem ég geri nákvæmlega einu sinni á ári og alltaf bara á lokametrunum á aðfangadegi, og svo ætla ég að draga djúpt andann og leyfa andanum að líða yfir mig. Stressið er búið í bili og nú er komið að því að njóta.
Ég óska þér gleðilegra jóla, lesandi kær.
Þar til næst.