Kæri lesandi,
það rann upp fyrir mér ljós áðan. Ég áttaði mig á því að ég ætla að taka mig algjörlega í gegn … frá og með 1. janúar 2023. Þá legg ég veislumatnum og það verður bara vatn og þurrt í matinn. Allt grænmetið, maður lifandi! Enginn sykur og ég ætla þrisvar á dag í ræktina, nema á sunnudögum, þá ætla ég að klífa nýtt fjall á hverjum sunnudegi. Ég verð fullkominn … en fyrst þarf að klára veisluostinn innst í ísskápnum, og ísinn í frystinum, og hver keypti allt þetta snakk … ?
Ég var að klára að hámhorfa House of the Dragon. Mikið var ég hrifinn af þessu! Ég hef hreinlega forðast að hugsa um Game of Thrones síðan þáttaröðinni lauk með gríðarlegum vonbrigðum fyrir fimm árum, og ég hef oft sagt að ég neita að lesa bækurnar fyrr en Martin klárar þær (ég skal ekki láta hann teyma mig út í þau vonbrigði að lesa og fá aldrei að klára. Hann klárar fyrst, svo byrja ég).
En þessi sjónvarpssería er alveg frábær og ég bíð í ofvæni eftir framhaldinu. Just when I thought I was out, they pulled me back in!
Þessi jóladagur hefur allur verið innandyra. Við hjónin erum með flensuna, væga en þó einhverja, svo að við létum vera að fara í fjölskylduhittinga. Þetta endaði því í mestmegnis sjónvarpsglápi og bókalestri, beinverkjum og nefrennsli, kalkúnaafgöngum og ostinum góða.
Á morgun eru tvær stórar fjölskylduveislur og vonandi treystum við okkur í þær. Ég er þó ekki bjartsýnn. Svon’eru jólin.
Þar til næst.