Kæri lesandi,

ég fór út og mokaði planið í morgun, aftur og til undirbúnings fyrir snjókomuna sem hefur verið spáð í nótt. Ég vona að ég komist til vinnu á morgun, það ætti allavega ekki að vera vandamál að komast út á götu nema snjókoman verði þeim mun meiri en spáð hefur verið.

Síðdegis fór ég svo með stelpurnar í fjölskylduveislu, við búin að jafna okkur nægilega til að láta sjá okkur. Konan mín varð eftir heima enda enn frekar slöpp. Veislan var fín, gaman að sjá ættingjana en ein frænka mín sagðist hafa verið að leita að blogginu mínu nýlega en ekki fundið. Ég svitnaði aðeins, hélt hún væri að fara að afhjúpa mig fyrir stórfjölskyldunni, en það slapp fyrir horn. Kannski ætti ég að láta hana vita, senda henni hlekk á síðuna eða eitthvað. Þess vegna nota ég engin nöfn hérna ef ég kemst hjá því, svo það sé ekki hægt að gúgla nafn mitt og fá þessa síðu upp. Allir sem lesa hana vita hver ég er, það nægir mér, en það er óþarfi að þetta fari í dreifingu á samfélagsmiðlum eða eitthvað. Það er aldrei að vita hvað gerist ef rangt fólk kemst í hugsanir manns. Frænka mín er sem betur fer ekki ranga fólkið. Kannski ég sendi henni hlekk.

Eftir veisluna bauðst okkur hjónum svo óvænt kostaboð. Skiptidíll á húsum, eins og er móðins nútildags, og skyndilega erum við að leggja drögin að mánaðardvöl á Spáni á meðan gott fólk passar kisurnar okkar hérna í staðinn. Spennandi. Það væri þá tólfti næsta árs á austurströnd Spánar, eða sjö komma sex prósent. Best að endurnýja áskriftina að Duolingo og fara að æfa mig.

Á morgun fá stelpurnar að sofa út með mömmu sinni á meðan ég þarf að vakna snemma og hunskast til vinnu. Sem minnir mig á, ég ræddi þetta orð – hunskast eða hundskast – við félaga minn nýlega og eftir uppflettingu komumst við að því að báðar útgáfurnar eru réttar. Það er alveg dýrlegt, eða jafnvel dýrðlegt, annað orð sem hægt er að skrifa á tvo vegu. Þau eru eflaust fleiri.

(Svona eru samræðurnar þegar tveir rithöfundar, annar gamall málvísindanemi og hinn þýðandi, hittast. Nördalegt og notalegt.)

Þar til næst.