Kæri lesandi,
ég fór í útvarpsviðtal í maí og í miðri pásu á viðtalinu heyrði ég fyrst útvarpsauglýsingar og svo lag sem ég kannaðist við en þekkti ekki. Ég spurði þáttastjórnandann og hann sagði mér nafnið á sveitinni. Ég hafði heyrt nafnið en aldrei hlustað á hana áður þannig að þegar ég kláraði viðtalið og settist út í bíl gerði ég það sem fólk getur gert árið 2022 þegar það heyrir minnst á nýja tónlist og opnaði símann minn og innan nokkurra sekúndna var ég farinn að hlusta á þessa glænýju hljómsveit sem ég hafði aldrei heyrt áður. Þetta átti eftir að reynast uppáhalds platan mín á þessu ári.
Tveimur vikum seinna var ég búinn að ferja alla fjölskylduna austur á Hornafjörð og á meðan stelpurnar gáfu lömbum mjólkurpela hjá frænku sinni hentist ég út á Höfn í erindagjörðum og hlustaði á þessa plötu á meðan. Þetta olli því að í hvert sinn sem ég hlusta á þessa plötu renna götur Hafnar fyrir augum mér og ég rifja þennan dag sem ég átti einn að stússast inná Höfn upp eins ljóslifandi og hann sé nýliðinn. Ég hef alltaf tengt minningar við tónlist, veit ekki af hverju, sennilega er það svipað og Bubbi Morthens segist heyra liti og tengja alla tónlist við liti, en ég get tekið nánast hvaða hljómplötu sem er í uppáhaldi hjá mér og sagt í smáatriðum frá atviki eða atvikum sem ég upplifði á meðan ég hlustaði hvað mest á téða plötu. Hér er ég með írska hljómsveit og austfirska sveit og þetta verður einfaldlega alltaf samofið í huga mér. Það verður ekki umflúið.
Þessi plata geymir samt fleiri minningar. Ég hlustaði á hana til að slaka á daginn eftir að ég dó næstum því um verslunarmannahelgina, þá lá ég inni á hjartadeild LSH og reyndi að sýna þolinmæði yfir þeirri stöðu að þurfa að liggja inni á hjartadeild LSH um verslunarmannahelgina, ekki síst þar sem það virtist ekkert vera að mér en læknarnir þorðu ekki að sleppa mér alveg strax, og á meðan þeir fundu ekkert að mér leitaði hugur minn til Írlands og til Hornafjarðar og í útvarpsklefann hjá fjölmiðladeild Vodafone og mér tókst að gleyma stund og stað, sem var ríkuleg gjöf akkúrat þann daginn.
Sum tónlistarár eru einstaklega sterk. Til að mynda var ég með svona fimm plötur fyrir tveimur árum sem ég gat ómögulega gert upp á milli og valdi því á endanum enga plötu ársins. Í fyrra var þetta á milli tveggja fimm stjörnu platna og önnur þeirra hafði vinninginn af því að hún hafði komið út í upphafi árs en hin í lok árs. Í ár er ég með aðeins fátæklegri lista, ég myndi ekki lýsa plötu ársins í mínum augum sem fimm stjörnu plötu, hún er ekki meistaraverk, en hún er frábær og hún litaði veigamikla hluta ársins sem leið, og það skiptir jafn miklu máli og hvort hún hafi valdið straumhvörfum í alþjóðlegri tónlistarsenu eða ekki.
Ég hef frestað því aðeins að gera upp tónlistarárið af því að mér fannst eins og það væri veikt en það er það í raun og veru ekki. Það var bara ekki mikið um mergjaðar stúdíóplötur í ár, og stúdíóplötur eru minn heimavöllur í tónlist. En í þetta sinn þurfti ég aðeins að hugsa þetta betur og fatta að ég ætti ekki að skilgreina tónlistarárið mitt eingöngu út frá hljómplötum. Þetta var frábært tónlistarár.
Ég hef unnið mikið með playlista í ár, bæði lista annars fólks og mína eigin, og þar er ótrúlega margt af alls konar tónlist sem ég hef hlustað á aftur og aftur, sömu lögin og sömu playlistana, kannski 2-300 lög sem hafa verið sándtrakkið mitt á þessu ári. Einn uppáhalds playlistinn minn eftir aðra er t.d. listi leikarans Cillian Murphy, en hann var í fyrravetur með nokkra útvarpsþætti á BBC 4 í Bretlandi þar sem hann spjallaði um tónlist og spilaði alls konar tónlist sem er í uppáhaldi hjá honum. Ég kynntist svo mörgu frábæru þar og hlustaði held ég örugglega tvisvar á hvern þátt áður en þeir duttu út af netinu. Playlistinn með öllum lögunum er samt enn til á Spotify fyrir áhugasama, nóg að leita að nafni leikarans tónelskandi.
Hér er sem sagt það sem stendur upp úr á tónlistarárinu hjá mér, í stuttu máli:
- Þeir tveir sólólistamenn sem ég hef hlustað mest á sl. áratug skv. Spotify gáfu báðir út frábærar plötur í maí.
- Ég fór á forritaflakk í upphafi árs eftir að fólk fór að reyna að slaufa Spotify en komst að því að mér finnst hin forritin ekki eins góð fyrir mig og Spotify. Svo neituðu fjölskyldumeðlimirnir að prófa hin forritin, vildu ekki sleppa playlistum og öðru slíku á Spotify, svo að ég rataði á endanum heim með skottið á milli lappanna.
- Ég fór á eitthvað 70’s flipp í ár og hlustaði á ótrúlega mikið af ríkulegu efni frá þeim frábæra áratug sem ég gaf kannski ekki sanngjarnan séns á yngri árum, enda 90s barn sjálfur og ef við 90s börnin vorum eitthvað þá var það hrokafull í garð eldri tónlistar.
Og hér er að lokum topp 5 listinn yfir plötur ársins:
1. skinty fia – Fontaines DC
2. FutureNever – Daniel Johns
3. Eternal Blue – Spiritbox*
4. Peace or Love – Kings of Convenience
5. Mr Morale & The Big Steppers – Kendrick Lamar
* (Eternal Blue er mögulega sú plata hérna sem kemst næst því að vera fimm stjörnu plata, en það var samt persónulegt val að setja hinar tvær ofar.)
Þannig var tónlistarárið 2022. Fullt af alls konar frábæru efni, og á nýársdag 2023 mun ég henda því öllu í stóran playlista og byrja upp á nýtt.
Þar til næst.