Kæri lesandi,
ég get varla vélritað hér að kvöldi þriðja síðasta dags ársins, slíkur er fimbulkuldinn. Tólf gráður í mínus á Celsíus segir úrið mitt mér og ég held sveimérþá að úrið ljúgi því ekki. Ég hef reynt að sitja með teppi yfir mér á skrifstofunni, sitja með teppi yfir mér í sófanum, sitja kappklæddur við eldhúsborðið, sitja kappklæddur með teppi á mér í leshorninu og nú ligg ég uppi í rúmi með sængina og teppi yfir mér og mér er samt kalt. Ég er alvarlega að íhuga að leggjast bara í sturtubotninn og láta heita vatnið dynja á mér á meðan ég sef í nótt. Ég þrái hlýju.
Það var einmitt lítið um svefn í gærnótt þar sem yngri dóttirin vaknaði klukkan þrjú með ælupest. Hún skreið uppí til okkar og sagði mömmu sinni að sækja ælufötu en konan mín náði ekki til baka með fötuna áður en sú stutta ældi yfir allt rúmið og koddann hennar mömmu sinnar. Þannig að á milli þrjú og fjögur í nótt mátti ég klæða mig í föt, rífa rúmfötin utan af hjónarúminu, henda illa lyktandi ælurusli alla leið í tunnuna úti, búa um rúmið á ný og sitja svo aðeins hjá litla sjúklingnum á meðan móðir hennar fór í sturtu eftir að hafa þurrkað upp mestu æluna. Loks spreyjaði ég Hugo Boss í kringum hjónarúmið svo ég gæti sofnað aftur fyrir ælulyktinni, á meðan mæðgurnar sofnuðu saman í barnaherberginu. Þetta var löng nótt.
Edson Arantes do Nascimento er allur. Pelé, eins og heimurinn þekkti hann, var nær örugglega merkilegasti knattspyrnumaður allra tíma, sá sem færði listgreinina til okkar allra með framgöngu sinni á HM í knattspyrnu á sjötta, sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Hann gerðist í raun sendiherra íþróttarinnar og ferðaðist um allan heim að ferlinum loknum og leyfði fólki að bera sig augum eins og um guðlega veru væri að ræða. Hann kom til Íslands í kringum 1990 og meðal annars í Kaplakrikann. Ég var þá nýbúinn að lesa ævisögu hans sem hafði verið þýdd og gefin út á íslensku, með titlinum Svarta perlan (Perola negra á frummálinu ef portúgalskan svíkur mig ekki), en það var einmitt uppnefni Pelé. Hann var perlan sjálf, djásnið í djásninu sem var hið stórkostlega landslið Brasilíu 58-70, sá sem nútímavæddi knattspyrnuna fyrir okkur öll sem á eftir fylgdum. Þegar hann kom í Kaplakrika vorum við sem æfðum í yngri flokkum FH látin sitja í stúkunni á meðan hann kom niður á völl og fékk þar að taka í höndina á nokkrum vel völdum aðilum (mestmegnis krakkar sem voru … synir, frændur eða frænkur þeirra sem ráku félagið og reka enn). Við hin fengum að veifa honum úr stúkunni, og okkur fannst það svo sem alveg nóg í hita leiksins, við áttum bara erfitt með að trúa að Pelé sjálfur væri í Hafnarfirðinum!
Nema hvað, svo gekk hann rakleitt af vellinum og upp í svarta limúsínu með bílstjóra sem hóf að keyra hann á brott. Þá hlupum við nokkur á eftir honum og ég gerðist ágengur í hita leiksins, hljóp upp að bílnum farþegamegin og bankaði á gluggann við aftursætið. Skyndilega opnaðist bílrúðan og ég sá vinalegt andlitið fyrir innan, Pelé sjálfur, og á meðan ég hljóp við hliðina á bílnum rak hann hendina út um gluggann og ég tók í spaðann á honum. Svo komum við að beygjunni sem var þá á útkeyrslunni frá Kaplakrika og þá sleppti ég og missti bílinn framúr mér, og svo var hann farinn. Krakkarnir þyrptust hins vegar að mér eins og ég hefði unnið í lotteríinu og ég upplifði mínar fimm mínútur af frægð fyrir að hafa fengið að snerta goðið sjálft.
Ég hef alltaf haft það fyrir reglu að halda með liðum frekar en einstaklingum í knattspyrnu, til að mynda hef ég hitt feykimargar hetjur frá Liverpool en á erfitt með að detta úr einhverju jafnvægi, sama hve frægir þeir pésar eru. Pelé var kannski eini knattspyrnumaðurinn sem ég upplifði í þessum dýrðarljóma fyrr eða síðar. Ég tapaði í raun aldrei stjörnuglitrinu í augum þegar sá brasilíski var annars vegar, og nú er hann allur. Blessuð sé minning hans.
Ég hef nú lokið við áhorf á bæði House of the Dragon og The Rings of Power, báðar stóru fantasíuseríurnar sem HBO og Amazon sýndu nú á haustdögum. Ég verð að viðurkenna að ég fílaði House of the Dragon betur, finnst það einhvern veginn þáttaröð sem stendur á sterkari fótum og virðist vita meira hvað hún er að gera og hvað hún ætlar sér. The Rings of Power fannst mér meira vera eins og átta þátta undirbúningur fyrir hasarinn sem kemur væntanlega í næstu þáttaröð. Þessi fyrsta sería náði allavega aldrei að vera spennandi og virtist ómögulega geta valið sér umfjöllunarefni sem gæti veitt sögunni þá fléttu og þróun sem hugnast gæti. Ekki misskilja mig, þetta var gott og að mörgu leiti mjög gott, en ekki að öllu leiti og náði einhvern veginn aldrei að verða frábært. Ég er þó þolinmóður maður, fyrir það fyrsta eru þetta fallegustu þættir sem ég hef séð enda það langdýrasta sjónvarpsefni sem hefur verið framleitt. En þegar þú eyðir metfé í að búa til efni sem fær þrjár stjörnur af fimm þá eru það eiginlega vonbrigði. Mér þótti engu að síður gaman að eyða átta klst í Miðgarði og hlakka til að sjá hvert þau fara með þetta í næstu þáttaröð.
Þrjár stjörnur fyrir Máttarbaugana, fjórar fyrir Drekahýbýlin. Tvær og hálf stjarna fyrir The Wheel of Time sem Amazon gaf út í fyrra, og engin fyrir Witcher-seríuna sem ég gafst upp á eftir 1-2 þætti fyrir tveimur árum (ekki minn tebolli). Ég sé til hvort ég horfi á meira af Tímahjólinu þegar það snýr aftur en ég mun bíða spenntur eftir framhaldinu úr Miðgarði og Westeros.
Á morgun er stuttur vinnudagur og svo ætlum við fjölskyldan í sumarbústað yfir áramótin, hvað sem veðurviðvörunum um snjókomu á gamlársdag líður. Það er að segja ef ælupest þeirrar yngstu setur ekki strik í reikninginn.
Þar til næst.