Kæri lesandi,

við fórum í bústaðinn í gær, þrátt fyrir veðuraðvaranir. Ég skellti mér reyndar suður með sjó fyrst, Reykjanesið á enda og vann hálfan dag á skrifstofunni. Svo stakk ég af til baka í hádeginu, kom við á pósthúsinu í Keflavík og brunaði svo í Hafnarfjörðinn. Þar biðu stelpurnar mínar eftir mér og við fórum saman á jeppanum austur fyrir fjall og alla leið í Grímsnesið til foreldra minna. Komum okkur vel fyrir, mokuðum mjaðmaháan snjó í kringum bústaðinn og komum bílunum fyrir niðri við götu þar sem þeir ættu að geta farið af stað án mikillar fyrirhafnar ef skyldi snjóa.

Síðan höfum við slakað á hérna í sólarhring. Pabbi er duglegur að fylgjast með uppfærðum veðurspám, ég skammaði hann aðeins fyrir að liggja yfir þessu í gærkvöldi, sagði honum að það þýddi ekkert að koma hingað ef hann ætlaði að vera með lífið í lúkunum allan tímann yfir veðrinu. Veðurspáin í gærkvöldi gaf appelsínugula viðvörun og við héldum að við hefðum mögulega verið að festa okkur inni í einhverja daga hérna, en svo er að koma hádegi núna á gamlárs og enn bólar ekkert á veðrinu. Það er búið að lækka viðvörunarstigið niður í gult og lægðin fer sunnar en óttast hafði verið, svo þetta verður kannski minna en gert hafði verið ráð fyrir en eitthvað þó. Það kemur hvellur á eftir og þá vitum við framhaldið. Ég neita að liggja yfir þessu þangað til, verði það sem verða vill.


Lokadagur ársins hefst á þeim tíðindum að Benedikt páfi og Barbara Walters séu látin. Gamalt lag með Elvis Presley hljómar í útvarpinu og allir og amma þeirra skrifa áramótakveðjur á Andritinu. Þetta markar ákveðna stemningu, það er á hreinu, og eins og venjulega vill maður líta um öxl á þessum degi. Á maður ekki að gera það? Horfa til baka á gamlárs, fram á veg á nýárs? Ég nenni því varla. Þetta ár var skrítið, það leið hratt og við stóðum ákveðin hrakföll af okkur, þá sérstaklega Ómíkron-panikkið í upphafi árs og það að við litla fjölskyldan fengum öll Covid í fyrstu viku febrúar, og svo heilsubröltið á mér um verslunarmannahelgi. En við fermdum líka Gunnu í vor, það var dásamlegt og heppnaðist vel, og svo fórum við hjónin með hana í fermingarferðina sína til London í viku í sumar, og svo fórum við bara tvö í stutta helgarferð til Dublin í október. Það var ljúft að komast til útlanda eftir nærri þriggja ára hlé. Við ferðuðumst líka innanlands, áttum frábært sumar í júní hér í bústaðnum og á suðurlandinu almennt, fórum alla leið á Höfn yfir helgi og svo fórum við hjónin ein á hótel á Hellu í júnílok til að fagna tuttugu ára sambandsafmæli. Það var rólegt og rómantískt.

Heilt yfir hefur þetta verið gott ár. Ég hefði viljað gera meira af ákveðnum hlutum, kílóin fóru til dæmis en ég hefði viljað kveðja fleiri af þeim en ég gerði (sú vinna heldur bara áfram á nýju ári), og enn skrifaði ég varla staf á blað af viti, en gott og vel. Restin var feykigóð og okkur líður vel í árslok, það er ekki sjálfgefið svo ég þigg það.

Fyrst og fremst er ég bjartsýnn fyrir komandi ár. Það er líka ákveðin gjöf í sjálfu sér. Við erum á góðum stað og stefnum á góðar stundir, engin vandamál á sjóndeildarhringnum. Get ekki annað en verið þakklátur í þeirri stöðu.

Takk fyrir mig 2022. Þú varst betra ár en mörg en líka erfitt á köflum. Ég kveð þig sáttur og sting þér í reynslubankann.

Þar til næst.