Kæri lesandi,

veðmál okkar gegn veðrinu gekk fullkomlega upp. Eftir notaleg og kósý áramót í bústaðnum þurftum við ekki einu sinni að skafa rúðurnar á bílunum í morgun. Einhver snjór hafði fallið en bara brot af því sem spáð hafði verið, og þetta var allt bara púður sem var engin fyrirstaða. Við hituðum bílana og renndum okkur áreynslulaust í bæinn í hádeginu í dag.


Eins og venjulega á nýársdegi hugsar maður um það sem er framundan, eftir að hafa litið til baka í desember. Ég er bjartsýnn á að þetta ár verði mjög gott og farsælt, bæði fyrir mig persónulega og litlu fjölskylduna og almennt fyrir samfélagið. Til að mynda eru held ég engar kosningar á dagskrá í ár, sem er stór plús. Þá stefnir allt í fyrsta faraldurslausa árið síðan 2019, krossleggjum fingur að það verði raunin. Sól fer hækkandi á lofti og frosthörkunum sem hafa ríkt síðustu 5-6 vikur á loks að ljúka í komandi viku. Ég sé ekkert neikvætt í kortunum. 2023, gerðu þitt besta.

Þar til næst.