Kæri lesandi,

ég hef alltaf getað skrifað eins og vindurinn um hvað sem mér dettur í hug en þegar kemur að skáldlegri skrifum þá hef ég jafnan átt erfitt með eitt og það eru náttúrulýsingar. Stundum ranka ég við mér við lestur á prósa eftir aðra og fatta að viðkomandi er búinn að vera að lýsa náttúrunni eða staðarháttum í fleiri blaðsíður og ég hef verið hangið hugfanginn á hverju orði. Og af því að það er mér ekki eðlislægt þá finnst mér nánast eins og um töfrabrögð sé að ræða. Tolkien gerði þetta iðulega, stoppaði bara frásögnina mikilvægu af framvindu hringsins og föruneytis hans til að lýsa Fangorn-skógi eða Lothlóríen eða Rofadal í fleiri, fleiri blaðsíður, og þetta var alltaf jafn mikilfenglegur lestur, jafnvel í annað og þriðja skiptið.

Það er reyndar meira móðins í íslenskum prósa að stunda naumhyggju þegar kemur að náttúrulýsingum, ég man satt best að segja ekki í fljótu bragði eftir höfundi sem leyfir sér langa útúrdúra um náttúru á Íslandi. Yfirleitt velur fólk bestu setninguna og lætur hana nægja. Engu að síður hefur mér alltaf þótt mínum eigin náttúrulýsingum vera ábótavant, það er jafnan eitthvað sem ég þarf að lagfæra við yfirlestur og endurskrif.

Ég segi þetta bara til að undirstrika vanmætti mitt þegar ég leit út um skrifstofugluggann í hádeginu og tók ljósmyndina hér fyrir ofan. Þá hugsaði ég með mér að ef John Langan stæði hérna eða kannski Ursula K Le Guin, já eða Paul Auster eða jafnvel enn ljóðrænni höfundar eins og Ocean Vuong eða Mary Karr, þá gæti viðkomandi eflaust gert þessum djúpbláu heiðhvolfum með hvítum skýjahnoðrum betri skil en ég. Viðkomandi gæti jafnvel sagt eitthvað eins og að himnarnir verði svo djúpbláir við sjóndeildarhringinn að svo virðist sem þeir renni saman við úthafið, eins og jörðin halli undan fæti og maður fái á tilfinninguna að maður stari ekki bara út fyrir heldur niður fyrir. Eða eitthvað, ég sagði þér að ég væri ekki góður í þessu.

Annars hefur þessi mánudagur gengið ágætlega. Ég vaknaði fyrr en venjulega í morgun til að horfa á upptöku úr leik næturinnar í NFL-deildinni (mínir menn í Steelers unnu og eygja enn von um sæti í úrslitakeppninni!) en ég sofnaði á kristilegum tíma og svaf vel svo það kom ekki að sök. Vinnan í dag hefur að mestu snúist um að snúa öllu frá 2022 yfir til 2023 hér á skrifstofunni, þá sérstaklega öllum vinnuskjölunum sem þarf að núlla út og byrja að safna tölum og orðum í á nýjan leik. Það er bara eitthvað sem fylgir nýja árinu. Í gær dundaði ég mér til dæmis við að færa öll „Liked“ lög á Spotify yfir í playlistann „2022 Playlistinn“ og þá er ég með tómt blað til að byrja að „Læka“ lög aftur og safna þeim í playlista þessa árs. Þetta er prýðisgóð leið til að muna öll góðu lögin sem maður heyrði á árinu, og svo er gaman að fara aftur í tímann og hlusta á lögin sem heilluðu fyrir nokkrum árum.

Nýtt ár, ný skjöl og nýr playlisti. Einn daginn mun ég svo stela bát hér úr höfninni í Sandgerði og sigla honum alla leið að sjóndeildarhringnum og sjá hvað leynist í blámanum. Líklegast finn ég þar bara aðra höfn á hinum endanum, þar sem fólk stendur líka við gluggann og starir út í bláinn.

Þar til næst.