Kæri lesandi,
ég gat ekki annað en hlegið þegar ég byrjaði á nýrri hljóðbók í bílnum í dag. Ég var að ljúka við hina stórgóðu Mystic River eftir Dennis Lehane og næsta bók sem ég valdi er The Sea, The Sea eftir Iris Murdoch. Eftir það sem ég skrifaði um náttúrulýsingar og hafið í gær þá getið þið rétt ímyndað ykkur svipinn á mér þegar leikarinn Richard E. Grant hóf lesturinn á þessu stórvirki Murdoch.
Fyrsta málsgreinin er svo hljóðandi:
The sea which lies before me as I write glows rather than sparkles in the bland May sunshine. With the tide turning, it leans quietly against the land, almost unflecked by ripples or by foam. Near to the horizon it is a luxurious purple, spotted with regular lines of emerald green. At the horizon it is indigo. Near to the shore, where my view is framed by rising heaps of humpy yellow rock, there is a bland of lighter green, icy and pure, less radiant, opaque however, not transparent. We are in the north, and the bright sunshine cannot penetrate the sea. Where the gentle water taps the rocks there is still a surface skin of colour. The cloudless sky is very pale at the indigo horizon which it lightly pencils in with silver. Its blue gains towards the zenith and vibrates there. But the sky looks cold, even the sun looks cold.
Þvílík náttúrulýsing! Ótrúleg skrif! Hversu mögnuð fyrsta málsgrein í skáldsögu?! Hvað get ég eiginlega sagt um þetta mál sem þessi skrif Murdoch segja ekki nú þegar? Ég lýsti því í gær hvernig mér þætti alltaf skrifum mínum ábótavant þegar kemur að náttúrulýsingum og gerði svo heiðarlega tilraun til að gerast skáldlegur um hafið og bláu liti þess í gær. Og svo fyrir einskæra tilviljun álpast ég á þennan meistaraklassa í nákvæmlega lýsingum á litum hafsins.
Ég játa mig sigraðan. Vá, Iris. Vá.
Talandi um meistaraklassa, þá er hér lag á heimsmælikvarða:
Þetta er “Astronaut” eftir City and Colour, hugarfóstur hins magnaða Dallas Green (sem útskýrir nafn sveitarinnar), sem syngur hér með sinni æðislegu röddu.
Ég hef verið að kynnast City and Colour betur síðustu misseri eftir að hann heillaði mig upp úr skónum með magnaðri ábreiðu af laginu “Rain When I Die”, upphaflega með Alice In Chains, á tribjút-tónleikum þeirrar sveitar fyrir svona átján mánuðum. Eftir því sem ég best veit er Dallas Green annar tveggja söngvara hljómsveitarinnar Alexisonfire sem ég þekki lítillega og er ekkert yfir mig hrifinn af, en hér uppgötvaði ég aðra hlið á honum, kántrískotna kassagítarstemningu og frábærar lagasmíðar. Ég var því alls óundirbúinn þegar ég heyrði þetta lag fyrst fyrir nokkrum dögum. Rólegheitin og röddin og þessir textar, þetta er einfaldlega unaðslegt.
Það sem gerir lagið hins vegar stórkostlegt, lyftir því skýjum ofar er það sem gerist á síðustu tveimur mínútum lagsins. Þegar Green hefur lokið söng sínum og þessu dásamlega lagi virðist vera lokið, og maður heldur að það sé að gíra sig niður í rólegheitum, þá skyndilega lifnar hljómsveitin við á ný og heldur út á tryllt hafið á seglbát, og næstu tvær mínúturnar berst maður á öldunum hangandi utan á skútunni, öskrandi upp í vindinn og steytandi hnefa að veðurguðunum, fullkomlega á valdi tilfinninga sinna og með gæsahúð niður í ökkla.
Þarna hvíla ánægjustöðvar mínar. Nákvæmlega þarna. Í svona lögum sem koma á óvart og opna skyndilega dyr að veröld þar sem allt er fullkomið, ef ekki nema í nokkrar mínútur.
Þessi skrif Írisar, þessi söngur Dallas. Ég þarf að leggja mig.
Þar til næst.