Kæri lesandi,

á mánudagskvöldið gerðist svolítið skelfilegt. Þá voru að spila lið Buffalo og Cincinnati á heimavelli þeirra síðarnefndu í NFL-deildinni, og snemma í fyrsta leikhluta hneig Damar Hamlin, varnarmaður Buffalo, niður á vellinum í hjartastoppi. Þetta minnti óþægilega á önnur skipti sem við höfum séð svipað gerast, til dæmis þegar Marc Vivien-Foé hneig niður og lést í landsleik með Kamerún sumarið 2003, eða þegar Daninn Christian Eriksen fór í hjartastopp á EM 2021 en það tókst að bjarga honum. Á mánudagskvöld tókst að koma hjarta Hamlin aftur af stað en hann var fluttur með hraði á spítala þar sem honum var haldið sofandi og talinn í lífshættu næstu þrjá daga. Í gærkvöldi komu svo loksins fréttir um að hann væri vaknaður og á batavegi.

Á þriðjudag fór meðlimur fjölskyldu minnar undir læknishendur og þótt það væru ekki alveg jafn akút og aðstæður Hamlin þá var full ástæða til að hafa áhyggjur. Ég deili minni smáatriðum um það atvik hér en atvik Hamlin, sem áhorfendur urðu vitni að í beinni, til að viðhalda smá friðhelgi fjölskyldu minnar, en það er skemmst frá því að segja að við höfum haft áhyggjur.

Þegar svona gerist virðist allt annað hálf lítilfjörlegt. Lífið er sett á bið og maður á tilveru sem litast af því að reyna að hafa eitthvað fyrir stafni á milli frétta. En að svona skuli bera að í mínu persónulega lífi á sama tíma og öll fjölmiðlaumfjöllun litast af tveimur svona heilsubrestum (hinn er stórleikarinn Jeremy Renner sem rétt lifði af hræðilegt snjómokstursslys á nýársdag) hefur verið ansi súrt að upplifa. Alla vikuna hefur maður verið stressaður að fara inn á netið af ótta við að sjá það sem enginn vill sjá, tilkynningar um að annað hvort Hamlin eða Renner séu allir, og á sama tíma höfum við fjölskyldan hrokkið við í hvert sinn sem síminn hringir eða tilkynnir skilaboð af ótta við það sama. Þetta hefur svo allt farið í sama hrærigrautinn og við erum orðin ansi hvekkt. Þessi fyrsta vika ársins hefur verið löng.

Sem betur fer virðist allt stefna í jákvæða átt, en það er ekki útséð og á meðan ríkir stressið. Ég vann heima í tvo daga í vikunni og hafði ekki hug í að skrifa neitt hér á síðuna, enda hálf hjákátlegt að vera að tjá mig um önnur málefni þegar ekkert annað en þetta eina kemst að. En ég hafði tilefni til að skrifa um þá undarlegu tilviljun að allir fjölmiðlar skyldu vera undirlagðir þessari batavakt Renner og Hamlin á sama tíma og við litla fjölskyldan höfum setið föst á biðstofu lífsins.

Vonandi get ég farið að snúa mér að ómerkilegri hlutum en lífi og dauða á næstunni. Þangað til er þetta það eina sem maður hefur, biðin og vonin.

Þar til næst.