Kæri lesandi,

síðustu daga hefur bókmenntaumræðan mikið snúið að meintri rit/endurskoðun á verkum breska barnabókahöfundarins Roald Dahl. Dahl er auðvitað löngu látinn og verk hans mörg hver talin klassísk en svo virðist sem stór, ónefnd streymisveita hafi eignast hugverkaréttinn á sögum hans og við það tækifæri hafi verið ákveðið að endurútgefa valdar bækur. Nema, þá kom upp það vandamál að margt af því sem hann skrifaði stenst illa skoðun í dag, ákveðin sjónarhorn og skoðanir sem við myndum kalla gagnrýniverðar og jafnvel forkastanlegar í dag má finna á strjáli í verkum Dahl. Í kjölfarið virðast útgefendur hafa ráðist í þá vinnu að endur/ritstýra verkum hans fyrir útgáfu og fjarlægja sumt af því hneykslanlegasta, svo að börnin góð sem munu kannski horfa á sögur hans á streymisveitunni góðu á næstu árum bregði ekki í brún þegar þau leita uppi bækur hans í kjölfarið.

Ég er hugsi yfir þessu, viðurkenni það. Mér finnst mikilvægt að forkastanlegum skoðunum sé mótmælt í núinu en þarf það endilega að eiga við um hugverk löngu látins höfundar? Þetta voru orð og skoðanir síns tíma, eitthvað sem þótti ekki ámælisvert þá og er þá ekki um að gera að leyfa börnunum að kynnast sögunni og skoða þessi verk sem sneiðmynd af samfélagi sem þau tilheyra ekki sjálf? Eða þarf umfram allt að passa að börnin góð verði ekki triggeruð við lesturinn? Ég er eiginlega ekki sammála þeirri stefnu.

Yngri dóttir mín hefur haft háan hita og veirusýkingu yfir helgina. Slíkt gerist. Hún hefur sofið uppí hjá móður sinni í stóra rúminu og ég hef mátt sofa síðustu þrjár nætur í sófanum. Það fer svo sem ágætlega um mig þar en þetta er samt hvimleitt, mér líður eins og grasekli þótt konan mín sé innan seilingar og ég sakna dýnunnar minnar alveg ferlega mikið. En hvað um það, við yngri dóttirin höfum myndað með okkur smá hefð þegar hún er þannig lasin að hún hefur varla orku til að horfa á sjónvarp, hvað þá annað. Þá fer pabbinn á stúfana og grefur upp eitthvert gamalt ævintýrið, íslenskt eða erlent, og les fyrir elsku barnið. Hún er reyndar orðin níu ára og ég er meðvitaður um að fyrr en síðar mun hún ekki vilja þessar gæðastundir lengur, enda hafa unglingar engan tíma fyrir rödd foreldra sinna (eins og eldri systir hennar ber skýrt vitni um). En er á meðan er og í þetta sinn valdi ég að lesa fyrir hana ævintýrið um Litla Kláus og Stóra Kláus eftir H. C. Andersen.

Lesturinn gekk vel og hún hafði gaman af, þótt ekki kannaðist hún við söguna, en það var vissulega ýmislegt í þessu klassíska ævintýri sem hún gat hneykslast yfir. Litli Kláus hefnir sín í slíkum ítarlegheitum á Stóra Kláusi fyrir að drepa eina hest sinn – fyrst platar hann Stóra til að slátra sínum eigin fjóru hestum fyrir skjóðu af skildingum, þvínæst gengur hann enn lengra og platar Stóra til að myrða ömmu sína (enn og aftur fyrir pening) og loks platar Litli Stóra til að kasta sér í straumharða ána í tryggilega bundnum strigapoka til að eignast enn og aftur auðævi. Aldrei græðir Stóri neitt á þessu heldur tapar lífi sínu í ánni, eins og búast mátti við, og Litli Kláus snýr sigri hrósandi heim að góðu verki loknu.

Dóttir mín hlustaði opinmynnt og brosandi á þessa frásögn föður síns og var um margt hneyksluð. Svo ræddum við söguna að lestri loknum, ég spurði hana hvað henni fannst um aðgerðir Stóra og Litla og gaf henni rými til að greina söguna sjálf og beita smá rökhugsun á það sem hún hafði heyrt. Hún var á því að Litli Kláus hefði vel mátt kvarta og jafnvel hefna sín á Stóra Kláusi fyrir hestsvígið en á sama tíma fannst henni Litli ganga allt of langt í hefndaraðgerðunum. Sagan er þó ekki einföld, Stóri Kláus heldur áfram að vinna sér inn makaleg málagjöld með frekari misgjörðum í garð Litla, en eftir skemmtilegar samræður vorum við sammála um að þótt þeir hefðu báðir komið illa fram við hvor annan á ýmsum stöðum í sögunni væri ekki annað sagt en að þarna hefði siðleysinginn Litli Kláus komist upp með ansi margt.

Ef ég væri breskur útgefandi í samstarfi við eina af stærstu streymisveitum heimsins hefði ég sennilega aldrei lesið þessa sögu fyrir dóttur mína. Þess í stað hefði ég kannski bara ritskoðað hana þannig að Litli Kláus móðgaði Stóra Kláus, Stóri skammaði hann fyrir það og þeir rifust aðeins en tókust svo í hendur og urðu vinir. En það hefði hvorki gefið rétta mynd af ævintýrum eins og þeim sem H.C. Andersen og hans samtímafólk hafði gaman af né verið eins áhugaverð saga fyrir dóttur mína árið tuttugu og þrjú. Frásögnin hefði einfaldlega verið fátækari ef ég hefði ritskoðað hana.

Kannski horfir hún einn daginn á stórmynd eftir sögu Roald Dahl í sjónvarpinu og spyr svo pabba sinn hvort hún geti einhvers staðar nálgast bókina. Þá mun ég koma henni á óvart með sögu sem var skrifuð af Roald Dahl, frekar en einhverjum ofurviðkvæmum Karenum í Bretlandi árið tuttugu og þrjú.

Þar til næst.