Kæri lesandi,

ég hef verið með þrálátan bakverk í hálfan mánuð núna. Í byrjun febrúar hreyfði ég mig skakkt við minnsta tilefni og fann fyrir snörpum sting í hægri síðunni, rétt undir herðablaði, en hann var blessunarlega ekki nógu slæmur til að slá mig út af laginu. Ég þurfti ekkert að leggjast fyrir eða fara til læknis. Nema hvað, hann hefur hvorki versnað né batnað í tvær vikur núna og á mig eru farnar að renna tvær grímur. Ég er satt best að segja orðinn frekar þreyttur á að bíða eftir að líkaminn geri það sem hann á að gera. Ég sé um allt hitt, hef ekki snert gólf með hendi í fimmtán daga og geng þolinmóður um í reimalausum skóm á meðan ég bíð eftir að geta hreyft mig eðlilega. Mér er allt fært eins og venjulega en þessi verkur, sem er mildur en ævarandi, er orðinn ansi pirrandi. Þetta líf, það drepur mann að lokum.


Einu sinni var ungur karlmaður sem skrifaði skáldsögu. Skáldsagan kom út og þá vildi svo til að landsþekkt sjónvarpskona hafði einnig skrifað sína fyrstu skáldsögu og gaf út það sama haust. Skáldsögurnar voru keimlíkar svo að nýliðarnir tveir voru skyndilega orðnar að persónum í sögu eftir Eirík Örn Norðdahl. Þegar saga unga karlmannsins kom út var hann á kafi í handriti fyrir næstu skáldsögu sína en þegar salan á frumverkinu reyndist dræm tók svikaraheilkennið að kræla á sér og fyrr en varði var handritið að næstu bók komið í mikinn háska. Ekki bætti úr skák þegar bók hins nýliðans seldist í bílförmum, sló víða í gegn og fékk að því er virtist alla athyglina sem í boði var fyrir heimsendaskáldsögur úr Reykjavík það haustið. Það fór svo að ungi karlpenninn náði með herkjum að klára handritið á þremur árum en þegar stóru forlögin afþökkuðu það var honum öllum lokið. Hann stakk handritinu ofan í skúffu og tókst að sannfæra sjálfan sig um að hann ætti sennilega ekkert erindi á ritvöllinn, innan um sér merkilegra fólk og hæfileikaríkara. Sú skoðun hefur ekki breyst í á þriðja ár núna.

Nema hvað, í gær rakst ég fyrir slysni á þessa grein í Tímariti Máls og Menningar frá því í desember 2017, eða fyrir sextíu og tveimur mánuðum síðan. Þar fer virt fræðimanneskja á sviði bókmennta (og þá sérstaklega á sviði furðusagna) fögrum orðum um báðar keimlíku sögur nýliðanna frá haustinu 2016, gefur þeim jafnt vægi og kjarnar umfjöllun sína á því hversu mikilvægar svona sögur séu. Fræðimanneskjan segir meðal annars:

[Bók karlhöfundarins] er einnig frumraun höfundar. Hún sver sig á meira áberandi hátt í ætt við vísindaskáldskap og er það væntanlega ein ástæða þess að bókin hlaut ekki viðlíka athygli og Eyland þrátt fyrir að vera ekki síður athyglisvert verk.

Hún segir einnig í niðurlagi greinarinnar:

Sögur eins og Eyland og [bók karlhöfundarins] eru framlag skáldskaparins til þess einfalda sannleika og því dæmi um það hvernig skáldverk taka þátt í samfélagslegri umræðu. Jafnframt eru verkin mikilvægur þáttur í því að breikka svið íslenskra bókmennta með því að sýna fram á að viðfangsefni sem iðulega eru tengd afþreyingu geta og þurfa að vera virkur þáttur í þriflegri bókmenntaflóru.

Ég get sagt þér það, lesandi kær, að téður karlhöfundur hefði aldeilis haft gott af því að lesa þessi orð í desember árið 2017, frekar en að hafa í fimm ár ekki haft hugmynd um tilvist þessarar greinar í stærsta bókmenntariti landsins og svo rekist fyrir slysni á hana í gær. Nú er það helst til of seint og sú mikla hvatning sem svona grein felur í sér fyrir nýliða á vellinum dugir ansi skammt, úr því að ósigurinn er hér um bil innsiglaður.

En svona er lífið. Það er ekki nóg að fá það sem maður vill, maður þarf helst að fá það þegar það gagnast manni líka.

Þar til næst.