Kæri lesandi,

ég kláraði í gærkvöldi heimildarþáttaröðina Stormur á RÚV. Átta þættir alls sem fóru yfir Covid-faraldurinn á Íslandi frá upphafi þar til öllum takmörkunum var aflétt í febrúar í fyrra. Ég horfði ekki á upphafsþáttinn í beinni eins og margir aðrir þar sem ég hélt að ég hefði engan áhuga á að horfa á heimildarefni um faraldurinn svo stuttu eftir að honum lauk (og er honum yfirhöfuð lokið? þorir einhver að segja það upphátt?) en svo var þetta umræðuefnið næstu daga svo ég lét tilleiðast og sá ekki eftir því.

Þessir átta þættir eru feykilega góðir og þörf heimild, ekki bara um faraldurinn eins og við öll upplifðum hann heldur líka um það hvernig framlína þjóðfélagsins upplifði hana. Fólkið undir mesta álaginu og fólkið í mestu hættunni, og svo við hin sem urðum fyrir óþægindum og upplifðum óvissu og sum hver mikil veikindi vegna veirunnar.

Þessir þættir eru öllum til sóma og ég varð eiginlega bara hálf meyr í lokaatriðinu þegar fjölmargar af persónunum sem þættirnir fjölluðu um, allt frá forseta og forsætisráðherra til leigubílstjórans sem missti konu sína eða sonarins sem missti föður sinn, tóku af sér grímuna í blíðviðri og brostu til okkar hinna. Þessi faraldur var margt en hann var umfram allt tími samstöðu, samvinnu og gæsku hér á landi, sem er stór ástæða fyrir því að ekki fór verr en skyldi.


Ég hef staðið fyrir mikilli tiltekt heima um helgina, ásamt konu minni. Við erum bókafjölskylda og vorum löngu búin að sprengja utan af okkur allt afmarkað svæði ætlað bókum á heimilinu. Því þurfti að taka ákvörðun; það var annað hvort að kaupa nýjar hillur og leggja amk heilan langvegg undir bækur svo úr yrði veglegt bókasafn eða að grisja bækurnar allhressilega. Við ákváðum í janúar að setja upp almennilegt bókasafn og láta ekki eina einustu bók frá okkur en svo settu veikindi strik í reikninginn í febrúar (öll fjölskyldan fékk inflúensu og/eða streptókokkasýkingu á einu bretti) svo að við komumst ekki alveg strax í verkefnið. Og á meðan tókst mér eiginlega að snúast hugur, og eftir frekari umræður í síðustu viku ákváðum við hjónin að grisja, sem við og gerðum um helgina. Vinir og vandafólk kom svo í heimsókn og fékk að velja sér bækur og eitthvað ætlum við að selja en ég er líka með fimm fulla pappakassa í bílnum af bókum í miður góðu ástandi sem ég ætla að henda á Sorpu á eftir. Svo ætlum við að gera eitthvað fallegt við þær fallegu og eigulegu bækur sem eftir standa á heimilinu. Þetta verður lítið og fallegt bókasafn, ekki íþyngjandi bókastaflar upp um allar trissur. Sjáum hversu lengi það endist.


Myndin hér efst er tekin í dag, 21. mars 2023, og sýnir höfnina í Sandgerði eins og svo oft áður. Glöggur lesandi tekur eflaust eftir snjónum, snjókomunni, kuldanum og grámyglulegu himinhvolfinu. Þessi mynd var tekin á hádegi. Af hverju búum við aftur á þessu guðsvolaða skeri lengst norður í hafi?


Talandi um bækur, þá var ein af mörgum ástæðum þess að ég grisjaði úr staflanum sú að ég fór til sjónlæknis nýlega og fékk þann dóm að ég er að verða sjónlaus. Í kjölfarið þurfti sterkara gler í öll gleraugun mín og ég er að spá í að færa lestur minn eins mikið yfir á raftæki og ég get. Lesbretti og tölvan í stað prentaðra bóka með miserfitt letur fyrir sjóndapra. Svo hlusta ég svo mikið á hljóðbækur að ég er farinn að minnka lestur til muna, nema þá helst téðan raflestur. Þannig að ég sé fram á að vera rafrænn með þetta til frambúðar og kaupa mikið minna af prentuðum bókum. Kannski mun ég hlæja að þeirri yfirlýsingu eftir nokkur ár, enda nánast um áráttu að ræða þegar ég og bókakaup eru annars vegar.

Þar til næst.