Kæri lesandi,
skáldum þessa heims er almennt hægt að skipta niður í tvo flokka. Auðvitað er hægt að flokka fólk á fleiri vegu og draga endalaust í dilka en í grunninn er um að ræða fólk sem reynir að skilja heiminn með því að skrifa um sjálft sig eða fólk sem reynir að skilja heiminn með því að skálda eitthvað.
Ég hef alltaf heillast af báðu. Þess vegna hef ég ílengst í blogg- og dagbókarskrifum samhliða því að semja sögur. En nýverið hefur gripið mig sú tilfinning að ég þurfi að hætta að tvístíga svona beggja megin línunnar og velja annað hvort. Höfundur getur verið til í báðum heimum, um það eru mýmörg dæmi eins og Henning Mankell eða Margaret Atwood eða Hallgrímur Helgason eða Auður Jónsdóttir, en flest af þessu fólki er aðallega öðrum megin við línuna (oftast í skáldskap) og tiplar tánum bara endrum og sinnum yfir hinum megin. Knausgård er sá eini sem mér dettur í hug akkúrat núna sem skrifar mestmegnis um sitt líf en hleður stöku sinnum í skáldskap.
Ég varð um tíma þreyttur á að reyna að skilja heiminn með því að skrifa um sjálfan mig. Þess vegna fór þessi dagbók halloka, eins og mörg fyrri blogg mín. Það gerist ekki af því að ég hætti að upplifa áhugaverðar stundir eða eftirminnilega daga, heldur af því að ég þreytist á tóninum í sjálfum mér. Ég er of mikill vælukjói, eða of sjálfmiðaður, eða of gjarn á endurtekningar sem skila engu, hvorki hreinsun né þróun söguhetjunnar (sem er vitaskuld ég sjálfur). Þegar ég skálda eitthvað get ég allavega stýrt því að sögupersónurnar þróist og endi á öðrum stað en þær voru í upphafi frásagnar. Þegar ég skrifa „hann lærði sína lexíu og endurtók þessi mistök ekki aftur“ um skáldaða persónu þá eru það frábær skrif og sönn, en þegar ég skrifa slíkt um sjálfan mig er það stærri lygi en skáldskapurinn.
Sko. Þarna er hann, þessi tónn sem mér leiðist svo hjá sjálfum mér. Sjálfsvorkunn og gremja, eins og ungabarn sem bloggar um hvað heimurinn sé ósanngjarn því það fær ekki móðurbrjóstið lengur, eða þarf að taka tennur.
Ég hef þess vegna hvílt þessa bók um daga aðeins undanfarin misseri og reynt þess í stað nýja nálgun á skáldskapinn, nálgast hann úr annarri átt. Það hefur ekki skilað miklu ennþá, ég er enn svolítið að ramba um höfin á fleka og hef ekkert fast land undir fótum, en vonin lifir góðu lífi og ég held að þetta enduruppgötvunarferli muni skila mér á nýjan og spennandi stað innan skamms.
Aðallega er ég að njóta þess að hafa gaman af ferlinu, en ánægjan sú var alveg horfin í nokkur ár. Þess vegna hætti ég að skrifa og stakk öllu ofan í skúffu, af því að þetta var einfaldlega ekki gaman lengur og tók orðið miklu meira en það gaf mér. Það er sennilega þurra landið sem ég sé í hillingum hér úti á rúmsjó, berfættur á flekanum, haldandi dauðahaldi í löskuðu árina mína, það er staðurinn þar sem skrif auðga líf mitt á ný í stað þess að gera það verra. Mér er skítsama um allt hitt sem kann mögulega að fylgja á eftir, vangaveltur um útgáfu og allan þann djass, ég skal skrifa til æviloka og stinga því öllu í skúffuna ef ég þarf, eins lengi og ég fæ eitthvað út úr því fyrir mig sjálfan. Fyrst finnum við þurrt land, síðan má hafa áhyggjur af því að byggja kofa á ströndinni.
Þar til næst.